Íslendingar lifa lengi og líður nokkuð vel á efri árum

Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV
Niðurstöður könnunar benda til að COVID-19 hafi ekki haft mikil áhrif á heilsu fólks 67 ára og eldri. Ævi Íslendinga hefur lengst tölvuvert undanfarna áratugi og líðanin virðist almennt góð þótt árin færist yfir.

Í tölum Hagstofunnar sem birtust í júní 2020 kom fram ævi karla hafi að meðaltali verið sex árum lengri árið 2019 en 1988 og meðalævi kvenna lengdist um rúm fjögur ár.

Í niðurstöðum könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um hagi eldri borgara, 67 ára og eldri sem birtist í mars síðastliðnum kom fram að 40% aðspurðra kváðu sig ekki hafa einangrast félagslega eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á.

Um sjö af hundraði sögðust hafa einangrast mikið. Ríflega átta af hverjum tíu sem svöruðu sögðu andlegri heilsu sinni ekkert hafa hrakað en 72% sögðu líkamlega heilsu ekki hafa dalað.

Aðeins um 1% kváðu heilsunni hafa hrakað mjög mikið eftir að COVID-19 skall á. Um það bil 16% gátu ekki hitt nákomna ættingja með einhverjum hætti en 66% hittu fólk í eigin persónu.

Einmana eldri borgurum fjölgar

Um tveir af hverjum þremur kváðust aldrei vera einmana en hópurinn sem upplifir einmanaleika hefur þó farið stækkandi frá árinu 2007. Algengara er að þau sem eru búa ein, ógift eða hafa misst maka séu stundum eða oft einmana. Um 16% verja meiri tíma ein en þau kysu. 

Það á einnig við um tekjulítið fólk og þau sem hafa slæma heilsu. Ríflega fjórðungur svarenda tekur þátt í félagsstarfi eldri borgara á vegum sveitarfélagsins. 

Þeim fjölgar sem hafa fjárhagsáhyggjur en þó dregur úr slíkum áhyggjum með hækkandi aldri. Eldra fólk með tekjur undir 300 þúsund krónur á mánuði kveðst hafa þörf á meiri innkomu. 

Könnunin var gerð fyrir Félagsmálaráðuneytið, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Landssamband eldri borgara á tímabilinu frá 16. nóvember 2020 til 16. janúar 2021. 

Er líða fer að lokum

Íslenskar konur lifa að meðaltali 84,1 ár sem er sjöunda lengsta meðalævi í Evrópu en spænskar, franskar og svissneskar konur verða Evrópukvenna elstar.

Meðalævilengd íslenskra karla var rétt tæpt 81 ár 2019 og voru þeir í öðru sæti Evrópubúa sjónarmun á eftir svissneskum körlum.

Eitt sinn þurfa allir menn að deyja en fyrstu þrettán vikur ársins dóu aðeins færri Íslendingar en á sama tíma árin 2017 til 2020.

Á þessu ári hafa 44,2 dáið í hverri viku en árin á undan létust 46,2 að meðaltali samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Tíðast er að fólk látist 85 ára það sem af er árinu en árin á undan 87 ára. 

Alls hafa 29 látist af völdum COVID-19 á Íslandi. Langflest hinna látnu voru á aldursbilinu 80 til 89 ára eða fjórtán, þrjú voru komin yfir nírætt. Þrennt á sjötugsaldri hefur þurfta að láta í minni pokann fyrir sjúkdómnum og ein manneskja á fertugsaldri.

Samkvæmt upplýsingum á vefnum Covid.is eru ríflega 32% fólks yfir sjötugu fullbólusett og tæplega 60% hafa fengið fyrstu sprautu. Tæplega 96% yfir áttræðu og ríflega 97% yfir níræðu eru fullbólusett.