Fyrirtæki ættu að hafa svigrúm til að lækka vöruverð

15.04.2021 - 16:57
Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir / Þórgunnur Oddsdóttir
Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnisstjóri verðlagseftirlits ASÍ segir vegna aukinnar sölu og hagstæðs vaxtaumhverfis hafi fyrirtækin svigrúm til að lækka verð. Aðeins hafi dregið úr verðhækkunum. Róbert Farestveit, sviðstjóri og hagfræðingur hjá ASÍ, segir ekki æskilegt að hækka vexti til að halda aftur af verðbólgu

Auknir erfiðleikar vegna atvinnuleysis

Seðlabankinn kynnti í gær greiningu sína á fjármálastöðugleika nú þegar hillir undir lok kórónuveirufaraldursins. Meginniðurstaðan er sú að staða heimila og flestra fyrirtækja sé sterk þrátt fyrir faraldurinn og bankakerfið sé vel í stakk búið til að fjármagna viðspyrnuna. Ef atvinnuleysi dragist hins vegar á langinn muni erfiðleikar heimilanna aukast. Mikilvægt sé að ná verðbólgunni niður.

Aðeins dregið úr verðhækkunum

Mjög miklar verðhækkanir voru á síðasta ári og benti verðlagseftirlit ASÍ á það í Speglinum fyrir áramót. ASÍ skoðar á nokkra mánaða fresti vörukörfur þar sem kannað er hvernig verð hefur breyst í matvöruverslunum. Nýjasta könnunin var núna í mars og voru verðbreytingar skoðaðar í  Bónus, Krónunni, Nettó, Hagkaup, Kjörbúðinni, Iceland, Heimkaup og Krambúðinni.

Auður Alfa Ólafsdóttir, er verkefnastjóri Verðlagseftirlits ASÍ: „Við sáum að verð hefur lækkað ef eitthvað er í meirihluta verslana lítillega þó í flestum tilfellum og það bara kemur heim og saman við vísitölu neysluverðs sem sýnir að verð hefur nánast staðið í stað að meðaltali á matvöru frá því í nóvember þó auðvitað sé misjafnt eftir liðum hversu mikið þeir hafa lækkað og hækkað og svo framvegis“

Frá því í byrjun nóvember 2020 þangað til í lok mars 2021 lækkaði vörukarfa ASÍ í sex verslunum af átta. Mest lækkaði hún í Heimkaup um 11,2%  en hún hækkaði mest í Nettó um 0,8%.
 
„Við erum að sjá þetta sama á öðrum vörum og þjónustu eins og á heimilisbúnaði og raftækjum að það hefur annaðhvort staðið í stað eða lækkað lítillega frá því í nóvember. Þannig að það hefur dregið úr þessum verðhækkunum en eftir stendur samt að verð hefur hækkað mjög mikið frá því Covid fór af stað fyrir ári síðan.“ 

Minni hvati hjá fyrirtækjum að lækka verð

Auður segir að krónan hafi veikst og þá sé dýrara að kaupa innfluttar vörur. Ennfremur ef mikil samkeppni væri á markaði hér á landi og lítil eftirspurn myndu fyrirtæki frekar leita leiða til að halda verði niðri.

„En hið öfuga hefur gerst í raun og veru.  Eftirspurn hefur aukist gríðarlega mikið og velta hjá dagvöruverslunum, matvöruverslunum, raftækjaverslunum og verslunum með heimilisbúnað svo eitthvað sé nefnt og fataverslun líka. Hún hefur aukist gríðarlega á síðasta ári. Þannig að eftirspurn eftir vöru og þjónustu hefur aukist mjög og það virðist hafa þau áhrif að það er sem sagt bara minni hvati fyrir fyrirtækin til að hækka ekki verð. “
 
Svipaðar verðhækkanir sést víða erlendis. Alþjóðastofnanir eins og OECD - Efnahags- og framfarastofnunin og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi séð merki þess um allan heim.  „Og þeir segja og í raun og veru hvetja stjórnvöld til að huga að samkeppnismálum í kjölfarið, að það sé mikilvægt að fylgjast með þróun vegna þessa. Og eins hvetja þau fyrirtæki til að hugsa til lengri tíma og byggja upp traust við viðskiptavini og nýta ekki þetta tækifæri til að hækka verð.“

„Auðvitað hafa núna aðstæður breyst og við sjáum að gengið er að styrkjast aftur. Þannig að það á að vera fullt svigrúm fyrir fyrirtækin bæði þess vegna og vegna annarra hagstæðra þátta í rekstrarumhverfi fyrirtækja, bara eins og lágt vaxtaumhverfi, sögulega lágt og þessa auknu veltu. Þannig að það ætti að vera fullt svigrúm til að lækka verð núna“ 

Ekki æskilegt að hækka vexti 

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á Vísi.is í gær að verðbólgan undanfarið væri að miklu leyti vegna veikingar íslensku krónunnar á síðasta ári. Nú væri gengið að styrkjast og hann byggist við að hærra gengi leiddi til þess að verðlag í verslunum lækkaði og hægt yrði að ná verðbólgunni niður aftur. Ef það gerðist ekki yrði að grípa til aðgerða.

Róbert Farestveit, er sviðstjóri og hagfræðingur ASÍ: „Við teldum ekki æskilegt að hækka vexti í núverandi efnahagslegum aðstæðum fyrst og fremst af því að þær verðbólguhorfur sem hafa versnað undanfarið eru aðallega vegna hrávöruverðs erlendis sem Seðlabankinn hefur ekki stjórn yfir og síðan fasteignamarkaðurinn sem gæti farið að ýta undir með verðlag. Við teldum að það væri skynsamlegra að hafa áhrif á fasteignamarkaðinn með öðrum hætti en vaxtahækkunum.“

Langvarandi kerfislægt atvinnuleysi áhyggjuefni

Almennt atvinnuleysi var 11 prósent í mars en þannig hefur það verið, sem sagt í kringum 11 prósentin síðan í nóvember. 

„Sko við teljum megináskorunina vera að ná niður atvinnuleysi á næstu árum. Þar er hópur sem býr við mikið tekjufall, langvarandi tekjufall í einhverjum tilfellum þar sem er langvarandi atvinnuleysi. Við teldum að vaxtahækkanir inn í þetta umhverfi væru ekki jákvæðar fyrir efnahagslífið.“
Róbert segir að efnahagslegur bati muni að einhverju leyti draga úr atvinnuleysi. ASÍ hafi áhyggjur af því að komið verði út úr kreppunni með hærra kerfislægt atvinnuleysi heldur en áður var og því þurfi að mæta með öðrum úrræðum. Stjórnvöld þurfi að koma fram með úrbætur til að bregðast við atvinnuleysinu.

Skortir skýra sýn frá stjórnvöldum

„ Já, við teldum að ýmsar úrbætur sem myndu t.d. efla atvinnuleitendur í að leita sér að nýrri þekkingu, menntun fyrir einstaklinga sem eru á fullorðinsaldri og yfir allan starfsaldurinn og ýmis úrræði til að hjálpa atvinnuleitendum til að koma aftur inn til starfa væri góð fjárfesting af hálfu hins opinbera. Þannig að það þarf að bregðast við ýmsum áskorunum með slíkum hætti. 
 Við höfum í raun og veru áhyggjur af því eins og núverandi fjármálaáætlun gerir ráð fyrir háu atvinnuleysi á næstu árum og við teljum að það skorti skýra sýn frá stjórnvöldum hvernig á að ná þessu atvinnuleysi niður.“