„Engin sérstök vonbrigði“ að sektir skuli ekki hækka

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir það engin „sérstök vonbrigði fyrir sig“ að sektir fyrir að rjúfa sóttkví skuli ekki vera hækkaðar. Þetta kemur fram í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu. Ríkissaksóknari ákvað í dag að verða ekki við tilmælum Þórólfs og heilbrigðisráðherra um að hækka sektir eða tryggja að sektarheimildir væru fullnýttar. Þrír erlendir ferðamenn, sem áttu að vera sóttkví, þurftu að greiða samtals 750 þúsund fyrir að fara út á galeiðuna í miðborg Reykjavíkur.

Eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að skikka þá farþega, sem gætu verið í sóttkví heima hjá sér til að vera á sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún, var reglum breytt. Skerpt var á því hverjir gætu verið í heimasóttkví og eftirlit með þeim hert.  

Í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra lagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, jafnframt til að þeim tilmælum yrði komið áleiðis til ríkissaksóknara að sektir fyrir að rjúfa sóttkví yrðu hækkaðar til muna eða tryggt að sektarheimildir væru fullnýttar. Sagðist hann telja að að auknar sektarheimildir yrðu til þess að menn freistuðust síður til þess að rjúfa sóttkví.

Embætti ríkissaksóknara ákvað í dag að fallast ekki á þessi tilmæli og í svari sínu til heilbrigðisyfirvalda segist Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, telja að sú heimild sóttvarnalæknis að geta skikkað fólk í sóttvarnahús ef það haldi ekki sóttkví hafi mun meiri fælingarmátt en hækkun sekta.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir í skriflegu svari við fyrirspurn við fréttastofu RÚV að það séu engin sérstök vonbrigði fyrir hann að sektir skuli ekki hafa verið hækkaðar.

Í erindi ríkissaksóknara til heilbrigðisyfirvalda bendir ríkissaksóknari á að sektarheimildirnar séu ríflegar miðað við sektir almennt. 

Í einhverjum tilvikum hafi sektir fyrir að rjúfa sóttkví numið 250 þúsund. Til að mynda hafi þrír erlendir ferðamenn þurft að reiða fram samtals 750 þúsund í sekt fyrir að fara út að skemmta sér í miðborg Reykjavíkur þegar þeir áttu að vera í sóttkví. Mennirnir voru ölvaðir og innan um fólk sem tengdist þeim ekki.

Sektir við að rjúfa sóttkví verða því áfram á bilinu 50 til 100 þúsund krónur en ríkissaksóknari hefur óskað eftir því að vera upplýstur um afgreiðslu allra mála sem upp koma og varða brot gegn sóttvarnalögum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV