Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Danir kalla herlið sitt frá Afganistan

Mynd með færslu
 Mynd: O. Sobhani - DR
Danir hyggjast kalla herlið sitt heim frá Afganistan í áföngum, frá og með 1. maí, í takt við brotthvarf bandarískra hermanna og annars herafla á vegum NATO. Þetta upplýstu utanríkis- og varnarmálaráðherrar Danmerkur, þau Jeppe Kofod og Trine Bramsen, á fréttamannafundi í gærkvöld. Kofod sagði enn mikið verk óunnið í Afganistan. „En Afganistan er annað land en það var fyrir 20 árum síðan," sagði ráðherrann.

Þau Kofod og Bramsen boðuðu til fréttamannafundar vegna málsins í framhaldi af fundi þeirra með kollegum sínum hjá NATÓ og eftir að Joe Biden, Bandaríkjaforseti, tilkynnti að brottflutningur Bandaríkjahers frá Afganistan hefjist 1. maí og ljúki ekki síðar en 11. september. 

10.000 hermenn frá 36 löndum

Um 100.000 bandarískir hermenn voru í Afganistan þegar mest lét. Í dag eru þar um 10.000 erlendir hermenn frá 36 löndum. Um 9.600 þeirra eru á vegum Nató og taka þátt í aðgerð sem gengur undir heitinu Resolute Support Mission. Hún hefur það meginmarkmið að þjálfa, réðleggja og styðja her og öryggissveitir heimamanna.

Bandaríkjamenn eru fjölmennastir í þessu liði, með um 2.500 manna almennt herlið í landinu og allt að 1.000 sérsveitarmenn til viðbótar, þótt þær tölur séu nokkuð á reiki. Danski varnarmálaráðherrann Trine Bramsen upplýsti að dönsku hermennirnir í Afganistan séu nú 135 talsins.