Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Banna alla næturgistingu í grunnskólum á Akureyri

15.04.2021 - 10:00
Mynd: Óðinn Svan Óðinsson / RÚV
Búið er að banna alla næturgistingu í grunnskólum á Akureyri þangað til úrbætur hafa verið gerðar í brunavörnum. Þúsundir barna sem sækja íþróttamót gista í skólum bæjarins á hverju ári.

Bannið ekki tímasett

Íþróttafélögum á Akureyri var tilkynnt í síðustu viku að búið væri að banna alla útleigu á skólum bæjarins fyrir gistingu. Bannið var ekki tímasett en í tilkynningu kom fram að því yrði ekki aflétt fyrr en búið væri að endurskoða eldvarnir í skólunum. Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri hjá slökkviliði Akureyrar segir að verið sé að skoða málin. 

„Ekki nóg að setja bara þumalinn upp í loftið og vona það besta“

„Ég er náttúrulega ekki hrifinn af því að það sé einhver starfsemi í gangi sem maður nær ekki almennilega utan um, hvort að sé í lagi eða ekki. Það er ekki nóg að setja bara þumalinn upp í loftið og vona það besta sko. Við viljum bara að það sé á hreinu hvernig er verið að gera hlutina og hvort þeir standist lög og reglugerðir eða ekki. Það er sú vinna sem við erum í núna, að kanna hvort að svo sé,“ segir Ólafur. 

Íþróttafélögin bíða með öndina í hálsinum

Á meðan að bannið er í gildi er nær ógerlegt að halda fjölmenn íþróttamót í bænum. Félögin bíða því með öndina í hálsinum eftir að lausn verði fundin. Úttektin er þegar hafin en er ekki ljóst hversu langan tíma hún mun taka. Karl Frímannsson, fræðslustjóri Akureyrarbæjar vonar að málin gangi hratt og örugglega. 

Bærinn í samkeppni við hótel í bænum?

„Það sem á vantar held ég helst er bara að skilgreina, í fyrsta lagi fjölda barna og fullorðinna sem mega gista í skólum. Það er munur á því hvort að fólk er sofandi í byggingunum eða vakandi, það eru mismunandi sko kröfur. Þannig að flóttaleiðis t.d þegar fólk er sofandi í skólanum, það eru aðrar kröfur en að deginum til, það er bara eitt dæmi. Eftirlitið tekur þetta bara út og við hlítum því þangað til það kemur,“ segir Karl. 

En ætti bærinn eitthvað að vera að standa í því að vera að selja gistingu í samkeppni við einkaaðila?

„Sko það er alveg á hreinu að opinberir aðilar, eins og sveitarfélög þeir eiga ekkert að vera í samkeppni við einkaaðila varðandi þjónustu. Það má kannski alveg fara inn í þá umræðu að þetta sé á gráu svæði en ég ætla ekki að hafa skoðun á því .“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Karl Frímannsson