Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Verðbólga yfir markmiði Seðlabankans fram á næsta ár

14.04.2021 - 14:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslandsbanki spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,2 prósent í apríl frá fyrri mánuði og að verðbólga hjaðni um 0,3 prósentustig og mælist fjögur prósent í þessum mánuði. Greiningardeild bankans segir útlit fyrir að verðbólgan hafi náð toppi og hjaðni nokkuð hratt þegar líða tekur á árið. Hún fari hins vegar ekki niður fyrir 2,5 prósenta markmið Seðlabankans fyrr en í byrjun næsta árs.

Hækkun húsnæðisverðs vegur þyngst til hækkunar vísitölu neysluverðs í apríl. Húsnæðisliðurinn hækkar um 0,35 prósent í þessum mánuði. „Þar ber helst að nefna reiknuðu húsaleiguna sem hækkar um 0,5 prósent. Reiknaða húsaleigan byggir á markaðsverði íbúðarhúsnæðis auk áhrifa vaxta á íbúðalánum og togast þessar stærðir á þessa dagana. Þannig hækkar markaðsverð íbúðarhúsnæðis um 0,8 prósent í apríl miðað við könnun okkar en vaxtaþátturinn vegur til 0,3 prósenta lækkunar á reiknuðu húsaleigunni,“ segir í spá bankans.

Þá hefur 0,2 prósenta hækkun á verði á matar- og drykkjarvörum áhrif á vísitöluna. Bankinn segir helstu ástæðu þess vera að verðlagsnefnd búvara hafi hækkað heildsöluverð á mjólk og smjöri vegna kostnaðarhækkana í framleiðslu. Sú hækkun er 3,5 prósent fyrir flestar mjólkurvörur en 8,5 prósent fyrir smjör.

Verðbólga hjaðnar jafnt og þétt

Bankinn telur að verðbólga hjaðni jafnt og þétt eftir því sem líður á árið og mælist 3,5 prósent í júlímánuði. „Í kjölfarið eigum við von á frekari hjöðnun verðbólgunnar og að hún muni síga niður fyrir 2,5 prósenta markmið Seðlabankans í byrjun næsta árs,“ segir í spá bankans.

Ljóst er að verðbólgan hefur hjaðnað hægar en gert var ráð fyrir. Í byrjun árs var talið að verðbólgan yrði komin niður í markmið Seðlabankans í lok sumars og í síðasta mánuði var spáð að það myndi gerast í árslok.

Styrking krónunnar á næstu misserum er mikilvægur þáttur í að spá Íslandsbanka gangi eftir. „Undanfarna mánuði hefur krónan haldið sjó og gerum við ráð fyrir styrkingu síðar á árinu þegar ferðamannagjaldeyrir byrjar vonandi að streyma inn til landsins á nýjan leik. Frekari styrking verði síðan á næstu árum með bjartari tíð í hagkerfinu,“ segir í spánni.

Hins vegar er tekið fram að mikið líf sé á íbúðamarkaði, von sé á talsverðum launahækkunum á næstu misserum og þá geti verðbreytingar erlendis vegna faraldursins haft frekari áhrif til verðhækkana hér á landi. Bankinn nefnir í því samhengi skort á flutningagámum í Kína sem hefur hækkað verð á gámaflutningum til Evrópu.

„Haldi þessi þróun áfram gæti það haft áhrif til frekari hækkana á verði innfluttra vara og þrálátari verðbólgu á komandi fjórðungum en við væntum í þessari spá,“ segir í spá greiningardeildarinnar.