Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Um 20 skólabörn fórust í eldsvoða í Níger

14.04.2021 - 00:28
Erlent · Afríka · Níger
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Um 20 börn fórust þegar eldur kom upp í skóla í Niamey, höfuðborg Níger, í dag, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði borgarinnar. kennslustofur skólans eru allar í strákofum og eyddi eldurinn 21 slíkum. Um 20 börn komust ekki út úr sínum stofum í tæka tíð sagði slökkviliðsstjórinn Sidi Mohamed í sjónvarpsfréttum. „Viðbragðsaðilar brugðust skjótt við og slökktu eldinn ... en eldurinn var ógnarmikill og börnin komust ekki út,“ sagði Mohamed.

Eldurinn kviknaði um klukkan 16 að staðartíma og stóð kennsla þá enn yfir í öllum skólastofum. Eldsupptök eru ókunn.

Níger er fátækasta ríki heims samkvæmt mælikvörðum Sameinuðu þjóðanna fyrir efnahag aðildarþjóða samtakanna. Stjórnvöld þar hafa gripið til þess ráðs á undanförnum árum að reisa þúsundir strákofa og nota sem skólastofur. Í frétt AFP segir að ekki sé óalgengt að eldur komi upp í kofunum, enda efniviðurinn eldfimur, en banaslys séu þó fágæt.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV