Sveitarstjóri hættir eftir tveggja ára taprekstur

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Jónatansson - Skeiða og Gnújpverjahreppur
Kristófer Tómasson, sveitarstjóri Skeiða-og Gnúpverjahrepps, sagði upp störfum á fundi sveitarstjórnar í dag. Í bókun á fundinum sagði hann ástæðuna vera að verulegt tap væri á rekstrarniðurstöðu sveitarfélagsins, annað árið í röð. Þetta væri eitthvað sem hann tæki mjög nærri sér því verið væri að sýsla með almannafé og brýnt að á því væri vel haldið.

Kristófer hefur gegn starfi sveitarstjóra frá árinu 2012 og bendir á í bókun sinni í dag að flest þau ár hafi rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins verið vel viðunandi. Síðustu tvö ár hafi farið á verri veg.

Hann fór í leyfi síðasta sumar af persónulegum ástæðum en þá  var rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins neikvæð um 36,5 milljónir. Oddviti sveitarstjórnar sagði niðurstöðuna hafa komið honum á óvart og að sveitarstjórnin hefði almennt ekki verið upplýst um raunverulega stöðu sveitarfélagsins.

Samkvæmt ársreikningi sem kynntur var á fundi sveitarstjórnar í dag nam tap af rekstri sveitarfélagsins um 40,1 milljón.

Í bókun sinni segist Kristófer ekki firra sig ábyrgð á því hvernig staðan er. „Það má eflaust finna dæmi, fleiri en eitt sem ég hefði betur hagað málum með öðrum hætti en raun ber vitni.“

Hann sé hins vegar sannfærður um að niðurstaðan hefði orðið betri ef samstaða hefði verið um að fara þær leiðir sem hann hefði lagt til á síðustu misserum.

Hann vonaði að þótt leiðir skildu á þessum vettvangi stæðu ekki eftir sárindi eða kali. „Ég hefði gjarnan viljað láta af störfum við jákvæðari aðstæður.“ Hann sagði æskilegast að hann fengi lausn frá störfum sem fyrst en væri tilbúin að gegna starfinu út þennan mánuð.

Tveir sveitarstjórnarmenn lögðu fram bókun þar sem þeir hörmuðu þá stöðu sem upp væri komin í sveitarfélaginu. Lögðu þeir til að ráðningarferli nýs sveitarstjóra yrði frestað þannig að sveitarstjórn fengi smá tíma til að meðtaka þá stöðu sem upp væri komin. „Og vinna úr málum með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljós.“

Aðrir sveitarstjórnarmenn tóku undir bókunina.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV