Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ný reglugerð: Má fara í sund og ræktina

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Ný reglugerð heilbrigðisráðuneytisins um takmarkanir á starfsemi innanlands tók gildi á miðnætti: Líkamsræktarstöðvar og sundlaugar mega opna, íþróttastarf fullorðinna og barna er heimilað á ný og bæði leikhús og barir geta tekið á móti gestum. Fólk þarf eftir sem áður að bera grímu og almennar samkomutakmarkanir eru bundnar við 20 í stað 10.

Flestir binda vonir við að minnisblöð Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, með tillögum um hertar samkomutakmarkanir heyri nú sögunni til og að næstu minnisblöð feli aðeins í sér afléttingu á samkomutakmörkunum.

Kórónuveirufaraldurinn hefur þó kennt landsmönnum að eina vissan í farsótt er óvissan. 

Gert er ráð fyrir að reglugerðin nú gildi næstu þrjár vikur eða til og með 5. maí og markmiðið er „að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins,“ eins og það er orðað.

Samkvæmt reglugerðinni er þetta heimilt:

  • Almennar fjöldatakmarkanir verða 20 manns.
  • Sund- og baðstöðum og heilsu- og líkamsræktarstöðvum heimilt að opna fyrir 50% af leyfilegum hámarksfjölda gesta, auk annarra skilyrða.
  • Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna með og án snertinga í öllum íþróttum heimilar með allt að 100 áhorfendum sem skulu skráðir í sæti. Hámarksfjöldi fullorðinna verður 50 manns en fjöldi barna fer eftir sömu takmörkunum og í skólastarfi.
  • Skíðasvæðum heimilt að taka á móti 50% af hámarksfjölda móttökugetu hvers svæðis.
  • Sviðlistir, þar með talið kórastarf, heimilar með allt að 50 manns á sviði og 100 sitjandi gestum í hverju hólfi, auk annarra skilyrða.
  • Hámarksfjöldi við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga áfram 30 manns en fjölgar í 100 manns við útfarir.
  • Öllum verslunum heimilt að taka á móti 5 viðskiptavinum á hverja 10 m², þó að hámarki 100 manns, auk 20 starfsmanna í sama rými og viðskiptavinir.
  • Skemmtistöðum, krám, spilasölum og spilakössum heimilt að hafa opið með sömu skilyrðum og veitingastöðum þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar.
  • Verklegt ökunám og flugnám með kennara heimilt.  

Áhugasamir geta lesið reglugerðina í heild sinni hér.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV