Lögregla sendi leikmenn heim sem áttu að vera í sóttkví

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Lögregla sendi leikmenn heim sem áttu að vera í sóttkví

14.04.2021 - 22:20
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í morgun afskipti af þremur nýjum leikmönnum knattpyrnufélagsins Kórdrengjum, sem leikur í 1. deild karla, þar sem þeir áttu að vera í sóttkví, samkvæmt gagnagrunni smitrakningateymisins.

Rafn Hilmar Guðmundsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við fréttastofu að þeir hafi haft afskipti þremur leikmönnum knattspyrnufélags sem hafi átt að vera í sóttkví. 

Davíð Smári Lamude, yfirþjálfari Kórdrengja, segir í samtali við fréttastofu að leikmennirnir séu nýkomnir til félagsins frá Bretlandi en þeir eiga að spila með liðinu í 1. deildinni í sumar.  

Hann segir þá halda til á hóteli og megi samkvæmt reglum fara út að viðra sig.  Þeir ákváðu því að fara út að hlaupa en hafi gert þau mistök að fara inn á knattspyrnuvöll og sparka í bolta. „Þeir eru mjög leiðir yfir þessu og finnst þetta mjög leiðinlegt,“ segir Davíð. 

Hann tekur skýrt fram að leikmennirnir hafi ekki umgengist neina aðra liðsmenn félagsins og að engin æfing hafi verið hjá Kórdrengjum þennan dag.

Íþróttaæfingar hjá bæði fullorðnum og börnum hefjast af fullum krafti á morgun þegar ný reglugerð tekur gildi.