Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fá upplýsingar um færð og ástand vega í rauntíma

14.04.2021 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Upplýsingar um færð og ástand vega verða gerðar aðgengilegar alþjóðlegum leiðsöguþjónustum með nýju kerfi sem Vegagerðin tók í gagnið í dag. Upplýsingunum hefur nú verið komið á samræmdan staðal Evrópusambandsins og geta leiðsögufyrirtæki nálgast þær á sama hátt á milli landa.

„Þær eru þá tilbúnar fyrir leiðsögufyrirtæki eins og Google og Here. Þessi fyrirtæki vinna eingöngu út frá þessum staðli þannig að upplýsingarnar okkar hafa ekki verið á tæku formi fyrir þessi fyrirtæki,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar.

Vegfarendur eiga þá að geta nálgast veigamiklar upplýsingar í rauntíma í leiðsögukerfum sínum. Stjórnvöld settu fjármagn í uppsetningu kerfisins í kjölfar óveðursins í desember 2019.

„Fólk kíkir á vefinn okkar áður en það fer af stað en það fær ekki miklar upplýsingar á meðan á ferðalaginu stendur. Það getur verið mjög verðmætt fyrir vegfarendur að fá upplýsingar um aðstæður hratt annað hvort í símann sinn eða í leiðsögutæki bifreiða. Þetta er öryggismál,“ segir Bergþóra.