Eftir sjö ára baráttu fær Freyja að taka barn í fóstur

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Eftir sjö ára baráttu og dómsuppkvaðinngu á þremur dómsstigum er það komið á hreint að Freyja Haraldsdóttir, doktorsnemi og réttindagæslumaður fatlaðra, má taka barn í fóstur. Hún er spennt fyrir þessu nýja hlutverki og vonar að málið ryðji brautina fyrir annað fatlað fólk.

Langt ferli

Það var árið 2014 sem Freyja óskaði fyrst eftir því að gerast fósturforeldri, Barnaverndarstofa hafnaði umsókn hennar og hún fékk ekki að sækja námsskeið sem var forsenda þess að hægt væri að meta hæfni hennar til að annast barn. Málið fór fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála, sem staðfesti synjun Barnaverndarstofu, Héraðsdómur var á sama máli en Freyja vann málið fyrir Landsrétti og síðar Hæstarétti, Barnaverndarstofa hefði mismunað henni vegna fötlunar og brotið gegn rannsóknarreglunni með því að kanna ekki hæfni hennar. Freyja fékk því að sækja námskeiðið.

Menntunin og innsýnin styrktu umsóknina

Í vikunni fékk hún svarið frá Barnaverndarstofu, að stofnunin sæí ekkert því til fyrirstöðu að hún tæki að sér barn. „Í matinu hjá mér kom fram að ég hefði bæði menntun, þekkingu og reynslu sem myndi nýtast vel til að taka barn í fóstur og tekið var sérstaklega fram að reynsla mín af misrétti væri eitthvað sem gæfi mér innsýn og verkfæri til að styðja barn sem hefur upplifað það að vera jaðarsett og kannski valdalaust í kerfinu,“ segir Freyja Haraldsdóttir, doktorsnemi og réttindagæslumaður fatlaðs fólk. Hún segir mat Barnaverndarstofu líka gefa til kynna að stofnunin sé búin að átta sig á því að Notendastýrð persónuleg aðstoð sé ekki ógn við velferð barna heldur mikilvægt verkfæri sem sé lagalega orðið þjónustuform á Íslandi.

Hatursorðræða og valdefling

Málið hefur verið mikið á milli tannanna á fólki, Freyja segist hafa orðið fyrir hatursorðræðu í tengslum við það en að þetta hafi líka verið valdeflandi ferli sem hafi sameinað fatlaðar konur og fatlaðar mæður og vakið athygli víða um heim.

Sumir hafa lýst því yfir að það sé ekki réttur neins að verða foreldri, þá hefur fólk viðrað áhyggjur af því að barnið ætti eftir að tengjast aðstoðarmanneskjum Freyju sterkari böndum en  henni sjálfri. Freyja segir þessa orðræðu endurspegla skilningsleysi, fötlunarfordóma og ótta við hið óþekkta. „Ég get ekki látið viðhorf annarra og virkra í athugasemdum stjórnað mínu lífi, augljóslega hefði ég ekki verið að sækjast eftir þessu hlutverki ef ég teldi mig ekki vera hæfa til að sinna því og haft getu til þess.“ Niðurstaðan liggi fyrir og hún þurfi því ekki að velta þessum ummælum fyrir sér lengur. 

Mörg börn í lífi hennar

Freyja hefur annast mörg börn, bæði í starfi og sínu persónulega lífi og segir að börnunum finnist aðstoðarfólkið skemmtilegt, en að það sé hún sem sé manneskjan í lífi þeirra. Það verði eins með tilvonandi fósturbarn. Foreldrahlutverkið sé vissulega líkamlegt að einhverju leyti eins og flest í lífinu, þess vegna hafi hún aðstoðarfólk en það sé hennar að taka ákvarðanirnar og sinna uppeldinu, „og þessum samskiptum sem eru grunnurinn að allri tengslamyndun fólks“. Hún telur ekki þörf á að fjölga aðstoðarfólki, en að hugsanlega þurfi að endurskoða verkefni og vinnutíma, en það hafi svo sem gerst áður og kostur við Notendastýrða persónulega aðstoð, NPA, hvað hún sé sveigjanleg.

Hlakkar til að takast á við nýtt hlutverk

Freyja vonar að málið verði fordæmisgefandi. „Á meðan okkur er haldið aftur og haldið niðri og ekki gefinn kostur á að taka að okkur hlutverk eins og foreldrahlutverkið fer samfélagið bara á mis við svo mikið,“ segir Freyja. Nú er bara að bíða eftir að Barnaverndarstofa finni barn sem passar Freyju en hún hefur ekki sett neina fyrirvara um aldur eða annað. „Ég bara hlakka til og er mjög opin.“ 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV