Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

AGS leiðréttir og uppfærir mat á aðgerðum stjórnvalda

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Umfang stuðningsaðgerða íslenskra stjórnvalda nema 9,2% af vergri þjóðarframleiðslu en ekki 2,1% líkt og greint var frá fyrr í vikunni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu en íslensk stjórnvöld bentu Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á skekkjuna.

Framangreint 2,1% hlutfall kom fram í umfjöllun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um viðbrögð ríkja við efnahagsáhrifum kórónuveirufaraldursins.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að Ísland tilheyri þar með svokölluðum „grænum“ ríkjum á borð við Danmörku, Belgíu og Frakkland. Jafnframt að umfang aðgerðanna sé það hæsta á Norðurlöndunum.

Fyrri samantekt sjóðsins varðandi Ísland hafi aðeins náð til ársins 2020 en ekki ársins í ár og næstu ára og aðeins horft til nokkurra aðgerða á borð við hlutabætur og útgöld innan heilbrigðiskerfisins. 

Enn fremur var ekki tekið tillit til lækkunar ýmissa skatta og gjalda sem eru hluti af stuðningsaðgerðum stjórnvalda, meðal annars lækkun og niðurfelling tiltekinna gjalda í ferðaþjónustu. Jafnframt hafi ríkissjóður ábyrgst lán til fyrirtækja, sem gagnagrunnur AGS náði ekki til.