Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þekktur norskur lögmaður myrtur í Ósló

13.04.2021 - 01:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Norðmaður á fertugsaldri var handtekinn í Ósló í gærkvöld, grunaður um morð. Hann er grunaður um að hafa orðið lögmanninum Tor Kjærvik að bana. Kjærvik var sjötugur, og þekktur lögmaður í Noregi.

Að sögn norska ríkisútvarpsins NRK varði Kjærvik fjölda sakborninga í sakamálum sem vöktu talsverða athygli í norskum fjölmiðlum.
Lögreglan hefur varist fregna um tengsl Kjærvik við hinn grunaða. Hann er nú í varðahldi og verður yfirheyrður í dag.

Nágranni greindi norskum fjölmiðlum frá því að hann hafi heyrt nokkra skothvelli. Fréttastofa norska ríkisútvarpsins, NRK, hefur eftir lögreglu að fleiri hafi verið inni í íbúðinni en mennirnir tveir þegar morðið var framið. Óskað er eftir því að vitni gefi sig fram. Lögregla hefur lagt hald á meint morðvopn.

Íbúi í nágrenni við húsið segist hafa heyrt skothvellina í gærkvöld. Sá segist hafa heyrt fjórum eða fimm skotum hleypt af. Einnig segist hann hafa heyrt hróp og köll úr íbúðinni.

Lögreglan knúði dyra hjá nágrönnum í gærkvöld. Rannsóknarlögreglumenn eru á vettvangi auk starfsmanna tæknideildar lögreglunnar í Ósló. 

Fréttin var uppfærð klukkan 07:12.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV