Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óttast margra mánaða seinkun á bólusetningum í Danmörku

13.04.2021 - 21:55
epa09132516 A box of Janssen vaccines is shown by pharmacist Zsolt Szenasi at a warehouse of Hungaropharma, a Hungarian pharmaceutical wholesale company, in Budapest, Hungary, 13 April 2021, after the arrival of the first batch of the Johnson & Johnson, US, made one-dose vaccine against COVID19 in the country. The first shipment contains 28 thousand doses of Janssen.  EPA-EFE/Szilard Koszticsak HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI
Bólusetningaáætlanir gætu farið úr skorðum víða ef bóluefnið frá Janssen verður ekki notað. Í Danmörku gætu þær frestast til loka árs og um sex til tólf vikur í Noregi. Í báðum þessum löndum hefur bóluefnið frá AstraZeneca enn ekki verið tekið í notkun á ný.

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum mæla með því að notkun á bóluefni Janssen verði hætt tímabundið sökum þess að sex af nærri sjö milljónum sem hafa fengið sprautu af Janssen í Bandaríkjunum fengu blóðtappa, allt konur yngri en fimmtugt og ein þeirra lést. Fyrsta sendingin af bóluefni Janssen hingað til lands er væntanleg í fyrramálið, 2.400 skammtar. Þeir verða ekki notaðir fyrr en niðurstaða Lyfjastofnunar Evrópu liggur fyrir um hvort einhver tengsl séu milli bóluefnisins og blóðtappa.

Bóluefni AstraZeneca enn í geymslu

Fari svo að Janssen-bóluefnið verður ekki notað til lengri tíma getur það sett bólusetningaáætlun íslenskra stjórnvalda úr skorðum. Það sama á við í nágrannaríkjum okkar. Stjórnvöld í Danmörku stefna á að klára bólusetningar 25. júlí en danska ríkisútvarpið greinir frá því að verði aðeins notað bóluefni frá Pfizer og Moderna ljúki bólusetningum ekki fyrr en undir lok árs. Danir nota ekki AstraZeneca-bóluefnið sem stendur. NRK greinir einnig frá því að verulegar seinkanir geti orðið á áætlunum Noregs, jafnvel átta til tólf vikur. Þar er bóluefnið frá AstraZeneca heldur ekki notað en stutt er síðan Evrópska lyfjastofnunin komst að þeirri niðurstöðu að skrá ætti blóðtappa sem afar sjaldgæfa aukaverkun bóluefnis AstraZeneca. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV