Hank Azaria biðst afsökunar á talsetningu Apu

Mynd með færslu
 Mynd: The Simpsons

Hank Azaria biðst afsökunar á talsetningu Apu

13.04.2021 - 17:35

Höfundar

Leikarinn Hank Azaria, sem talar fyrir sögupersónuna Apu Nahasapeemapetilon í sjónvarpsþáttunum The Simpsons, hefur beðist afsökunar á þeirri mynd sem dregin er upp af fólki af indverskum uppruna í þáttunum. Azaria er hvítur en Apu indverskur, og hefur leikarinn talað fyrir hann, með sterkum indverskum hreim, síðan árið 1990. 

Þættirnir hafa hlotið gagnrýni árum saman fyrir að ala á gamaldags hugmyndum um innflytjendur. Grínistinn Hari Kondabolu, sem er af indverskum og bandarískum uppruna, gaf árið 2017 út heimildarmynd um hvernig sögupersónan Apu byggðist á staðalímyndum um ákveðna kynþætti og síðan þá hefur gagnrýni á þættina farið vaxandi. Í myndinni kemur fram að á uppvaxtarárum Kondabolu hafi Apu verið nær eina suður-asíska persónan í sjónvarpsþáttum í Bandaríkjunum. Apu hafi rekið verslun og átt ótal mörg börn með eiginkonu sinni. Henni hafi hann gifst því foreldrar þeirra ákváðu það. Krakkar hafi oft hermt eftir hreim Apu til að stríða Kondabolu í æsku.

Hank Azaria, sem talað hefur inn á teiknimyndaþættina fyrir Apu, tjáði sig um málið í hlaðvarpsþættinum Dax Shepherd's Armchair Expert podcast nýlega og sagði þar að Apu hefði verið skapaður með góðum hug fyrir mörgum árum síðan, en að persónusköpunin ýtti engu að síður undir staðalímyndir. Þegar hann hefði byrjað að vinna við talsetningu á þáttunum fyrir um þrjátíu árum hefði hann ekki gert sér grein fyrir forréttindastöðu sinni í Bandaríkjunum sem hvítur ungur maður frá Queens í New York. Hann vildi því biðja alla af indverskum uppruna afsökunar. Fjallað er um málið á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Þættirnir um Simpson-fjölskylduna, sem eru orðnir yfir sjö hundruð, eru enn framleiddir en Apu kemur ekki fram í þeim um þessar mundir því verið er að leita að leikara með indverskan bakgrunn til að taka við hlutverkinu, að því er fram kemur í frétt BBC.

Hér má sjá kynningarstiklu heimildarmyndarinnar The Problem With Apu eða Vandinn með Apu sem nefnd er að ofan.

Tengdar fréttir

Erlent

Hvítir hætta að túlka þeldökka

Sjónvarp

Apu missir röddina

Sjónvarp

Skapari The Simpsons gerir lítið úr gagnrýni

Sjónvarp

Eru Simpsons þættirnir tímaskekkja?