Fallegt bréf frá Megasi hjálpaði Ólafi í gegnum sorgina

Mynd: RÚV / RÚV

Fallegt bréf frá Megasi hjálpaði Ólafi í gegnum sorgina

13.04.2021 - 11:20

Höfundar

Ólafur Teitur Guðnason missti eiginkonu sína fyrir tveimur árum. Á páskadag birti hann fallega frásögn af því hvernig textar og tónlist Megasar komu við sögu í sambandi þeirra, bæði í gleði og sorg. Bréf sem hann fékk frá söngvaskáldinu reyndist honum ómetanlegt. „Þetta hjálpaði mér að sleppa takinu á þessu verkefni.“

Eiginkona Ólafs, Engilbjört Auðunsdóttir, lést fyrir aldur fram 2019 úr hjartabólgu eftir fimm vikna sjúkralegu í Gautaborg í Svíþjóð. „Síðastliðið haust fór ég að taka saman frásögn um þessa atburði, hennar veikindi, minn missi og hugleiðingar um lífið og tilveruna sem því tengjast. Textar Megasar koma mjög við sögu í þessari frásögn,“ segir Ólafur, sem starfar sem aðstoðarmaður ráðherra. Frásögnina birti hann á minningarvef Engilbjartar. Rætt var við Ólaf í Víðsjá á Rás 1 í tilefni af afmæli Megasar 7. apríl.

Sendi henni bréf undir nafni Megasar

Þegar Ólafur og Engilbjört byrjuðu að draga sig saman vorið 1995 sendi hann henni svokallað mixteip þar sem fyrsta lagið á spólunni var Viltu byrja með mér, af plötunni Þremur blóðdropum með Megasi.

„Þetta var mín leið til að spyrja hana og ég fékk Megas eiginlega til að spyrja hana fyrir mína hönd. Með fylgdi bréf sem ég skrifaði eins og Megas væri að skrifa það, líka fyrir mína hönd, þar sem ég vitnaði mikið í annað lag af sömu plötu sem heitir Sehnsucht nach der Sehnsucht,“ segir Ólafur. „Undir þetta bréf skrifaði ég Megas, eins og hann væri að senda henni bréfið.“

Önnur lög Megasar af sömu plötu koma við sögu í frásögninni, eins og Gamansemi guðanna, sem fjallar um hvað áform manna eru hverful, og lokalag plötunnar, Meyjarmissir. „Að lokum vill svo til að lokalagið á þessari plötu er túlkun Megasar á ljóðinu Meyjarmissir, eftir Stefán Ólafsson, að mínu mati eitt fallegasta ljóð um söknuð sem hefur verið samið á íslensku og vill því líka svo til að byrjar á orðinu björt, sem stendur mér nærri af því hún hét nú Engilbjört, þessu einstaka nafni. Mér fannst það nánast vera örlagagletta stíluð á sjálfan mig að platan sem hafði fært mér hana með laginu Viltu byrja með mér og síðan lýst því sem gerðist í laginu Gamansemi guðanna, og öllum áformum okkar sem geta spillst, að hún skuli svo enda á laginu Meyjarmissir.“

„Ég harma missi þinn“

Þegar Ólafur lagði lokahönd á handritið varð honum ljóst að hann yrði að fá leyfi Megasar fyrir því að birta það, þar sem stór hluti þess byggðist á textum hans. Hann kveið því að hann tæki ekki vel í það en lét verða af því og komst í samband við hann fyrir milligöngu vasks og velviljaðs manns sem bauð fram aðstoð sína. 

„Það barst samdægurs svar frá Megasi sem var mér eiginlega miklu dýrmætara en mig hefði getað órað fyrir, því það var svo persónulegt og fallegt.“

Svar Megasar var svohljóðandi:

„Það er huggulegt að vita til þess að þú skulir geta gert þér eitthvert gagn úr þessum textum sem vissulega eru sprottnir af gamansemi guðanna. En vegir kímnigáfu guðanna eru órannsakanlegir svo maður verður að næra sig með brotum einum og sjúga úr þeim merkinguna. Ég þarf ekki að taka það fram en þér er auðvitað leyfilegt að nota þessar línur í prentuðu máli að vild og það gildir jafnframt um fleira sem þú mögulega rekst á og er merkingarbært fyrir þér. Ég harma missi þinn en dáist að aðferð þinni við að vinna úr honum, gangi ykkur feðgum vel.“

Ólafur segist hafa orðið gáttaður, orðlaus og glaður. „Þetta hjálpaði mér að sleppa takinu á þessu verkefni sem ég hafði nýtt kannski ómeðvitað í hálfgerða sorgarúrvinnslu.“ Honum fannst hann verða að birta svarið sömuleiðis, og fékk góðfúslegt leyfi fyrir því. „Þetta skiptir mig mjög miklu máli. Þetta er svo samofið okkar sögu og spilar svo stórt hlutverk bæði við upphaf og endi okkar sambands, okkar Engilbjartar, þannig að ég verð ævinlega þakklátur fyrir þetta.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Megas segir frá því þegar hann var bannaður á RÚV

Tónlist

Finnst Megasi ekki hafa verið umbunað nóg

Tónlist

Órannsakanlegir - Megas í Vikunni með Gísla

Tónlist

Megas sjötugur: „Bannfærði“ þátturinn