Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tekinn með tvö grömm og rannsakaður vegna 20 milljóna

12.04.2021 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Lögreglan á Suðurlandi rannsakar nú mál manns sem hefur játað á sig dreifingu fíkniefna. Lögreglan handtók manninn með tvö grömm af kannabisefnum á sér. Hún ákvað að rannsaka málið frekar þar sem vísbendingar þóttu um að maðurinn væri að dreifa fíkniefnum. Sú rannsókn leiddi í ljós að um 20 milljónir króna hafa farið í gegnum reikninga mannsins á tveimur árum sem verða ekki skýrðar með launagreiðslum og öðrum greiðslum sem gera mátti grein fyrir með öðrum hætti.

Maðurinn hefur verið yfirheyrður og að sögn lögreglu kannaðist maðurinn þar við brot sitt og dreifingu fíkniefna. Það mun hann hafa fengist við til að fjármagna eigin fíkniefnaneyslu. 

Rannsókn málsins stendur enn yfir að sögn lögreglu og verður mál mannsins að því loknu sent ákæruvaldi til ákvörðunar um saksókn.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV