Gerir ráð fyrir að funda með forstjóra Hrafnistu

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - rúv
Forstjóri Hrafnistuheimilanna sér fram á þrjú til fjögur hundruð milljóna króna hallarekstur á árinu, þar sem fjárframlög dugi ekki fyrir rekstrinum. 30 hefur verið sagt upp störfum og þjónustuskerðing blasir við. Forstjóri sjúkratrygginga segir þær ekki hafa svigrúm til að endurskoða greiðslur til hjúkrunarheimila.

Tuttugu manns var sagt upp á Hrafnistu við Sléttuveg og tíu til viðbótar á öðrum Hrafnistuheimilum. Uppsagnirnar ná til stjórn­enda, hjúkr­un­ar­fræðinga, ræsti­tækna og annars starfsfólks. María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistuheimilanna segir vissulega skjóta skökku við að ráðast í uppsagnir þar sem heimilin séu rekin með lágmarksmönnun og oft erfitt að fá fólk til starfa. Hún segir lítið um svör frá heilbrigðisráðuneytinu og sjúkratryggingum en kallar eftir að svokallað einingaverð á íbúa, sem ræður greiðslum til hjúkrunarheimila frá Sjúkratryggingum Íslands, verði hækkað.  

María Heimisdóttir, forstjóri sjúkratrygginga, segir að þau hafi enn sem komið er ekki fengið erindi frá Hrafnistu vegna málsins.

„Við höfum nú ekki fengið neitt erindi frá Hrafnistu eftir því sem ég best veit, en auðvitað er þetta ekki góð staða eins og henni er lýst,“ segir hún.

María segir að samningsbundnar launahækkanir hafi verið settar inn í útreikning einingaverðsins þegar það var reiknað út á sínum tíma. Aftur á móti sé enn verið að vinna að útfærslu á styttingu vinnuvikunnar. Sjúkratryggingar Íslands hafi ekki svigrúm til að hækka greiðslur til hjúkrunarheimila eða endurskoða einingaverð. 

„Það er í rauninni undir fjárveitingavaldinu komið. Það er ekki þannig að Sjúkratryggingar Íslands hafi eitthvert aukafé til að setja inn í þetta. En ég reikna með að við setjumst yfir þennan vanda með Hrafnistu og eftir atvikum heilbrigðisráðuneytinu og reynum að ná sameiginlegum skilningi um þetta. Og þá hvaða leiðir eru í stöðunni,“ segir María Heimisdóttir.