Beinn stuðningur ríkisfjármála einna minnstur á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ísland er á meðal þeirra Evrópuríkja þar sem beinn stuðningur ríkisfjármála til að stemma stigu við efnahagsáhrifum kórónuveirufaraldursins hefur verið minnstur. Á þeim lista eru einnig Tyrkland, Albanía, Hvíta-Rússland, Svartfjallaland, Bosnía og Hersegóvína og Moldóva. Ríkin eiga það sameiginlegt að stuðningurinn er undir 2,5 prósentum af landsframleiðslu. Þetta kemur fram í nýrri umfjöllun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um viðbrögð ríkja við efnahagsáhrifum kórónuveirufaraldursins.

Tekið skal fram að einungis er átt við beinan stuðning ríkisfjármála við fólk og fyrirtæki til að sporna gegn áhrifum faraldursins og áhrif sjálfvirkra sveiflujafnara eru ekki tekin með í reikninginn. Beinn stuðningur hefur víðast hvar í Evrópu verið yfir 5 prósentum af landsframleiðslu, og mestur í Bretlandi, Þýskalandi, Austurríki og Grikklandi, þar sem hann er yfir 10 prósentum af landsframleiðslu.

Mynd með færslu
 Mynd: AGS - Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Að því er segir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar nema mótvægisaðgerðir stjórnvalda gegn heimsfaraldrinum ríflega 190 milljörðum króna á árunum 2020–2021, ef frá eru taldir sjálfvirkir sveiflujafnarar í skatt- og atvinnuleysisbótakerfum. Þá segir að áhrif sjálfvirku sveiflujafnaranna nemi alls um 205 milljörðum króna til viðbótar á þessum tveimur árum.

Sjálfvirkir sveiflujafnarar eru þau viðbrögð ríkissjóðs sem fara sjálfkrafa af stað þegar harðnar í ári; atvinnuleysisbætur og samdráttur í tekjum ríkissjóðs vegna minni landsframleiðslu.

„Þótt sjálfvirkt viðbragð ríkissjóðs hafi verið öflugt þá varð fljótlega ljóst að eðli og stærð áfallsins nú kallaði einnig á sértækar stuðningsaðgerðir,“ segir í fjármálaáætluninni. Þar eru borin saman áhrif sjálfvirkra sveiflujafnara nokkurra ríkja og Ísland er á pari við Vestur-Evrópuríki eins og Frakkland, Þýskaland, Ítalíu, Bretland, Bandaríkin og Kanada.

Eins og sést á myndinni hér að neðan, úr fjármálaáætluninni, eru þær stuðningsaðgerðir sem hafa vegið mest hér á landi: hlutabætur, greiðsla launa í uppsagnarfresti, stuðnings- og viðbótarlán, frestun skattgreiðslna, og nú í janúar, tekjufallsstyrkir. 

Mynd með færslu
 Mynd: FJR - Fjármálaáætlun 2022-2026