80 prósent vilja harðari aðgerðir á landamærunum

Keflavíkurflugvöllur
 Mynd: RÚV
Alls virðast 92 prósent landsmanna frekar vilja að aðgerðir á landamærum verði hertar en aðgerðir innanlands, og um 80 prósent vilja mun harðari eða nokkuð harðari aðgerðir á landamærunum eins og staðan er nú. Aðeins eitt prósent kýs heldur að sóttvarnir innanlands verði hertar en aðgerðir á landamærunum. Þetta eru niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Afstaða til landamæraaðgerða meira afgerandi en áður

Ein þeirra spurninga sem bornar eru upp í könnuninni hljóðar svo: Ef eingöngu væri hægt að herða sóttvarnaaðgerðir á öðrum hvorum staðnum, það er innanlands eða við landamæri Íslands, á hvorum staðnum kysir þú að herða aðgerðir?

92 prósent myndu frekar vilja herða aðgerðir á landamærum og eitt prósent innanlands. Viðhorf landsmanna til spurningarinnar hefur breyst þó nokkuð á síðustu mánuðum. Á tímabili í október sögðust 50-60 prósent frekar vilja að aðgerðir yrðu hertar innanlands en á landamærunum en síðan þá hefur stuðningur við harðari aðgerðir á landamærunum aukist mjög og afstaða landsmanna hefur aldrei verið jafnafgerandi og nú.

80% vilja herða á landamærum og 2% vilja slaka

80 prósent landsmanna vilja að aðgerðir á landamærum verði hertar, nokkuð eða til muna, og stuðningur við hertar aðgerðir á landamærum hefur aukist á síðustu dögum, samkvæmt könnuninni. 18 prósent vilja óbreytt ástand á landamærunum og aðeins um 2 prósent telja tímabært að slaka á takmörkunum á landamærum.

Þegar horft er á niðurstöður aftur í tímann má líka sjá að þótt afstaðan hafi sveiflast umtalsvert virðast landsmenn sífellt hlynntari hertum aðgerðum á landamærunum. 

Alls segjast 42 prósent lítast illa á ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka upp litakóðunarkerfi á landamærunum 1. maí, og 30 prósent eru hlynnt þeirri ákvörðun. 

Treysta Þórólfi betur en ríkisstjórninni fyrir ákvörðunum

Í könnuninni segjast 64 prósent treysta ríkisstjórninni til að taka ákvarðanir um viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum. Hins vegar segjast 97 prósent treysta sóttvarnalækni til að taka ákvarðanir um viðbrögðin og traustið er sambærilegt til embættis landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. 

Alls eru 92 prósent ánægð með aðgerðir almannavarna til að hefta útbreiðslu veirunnar.

Hópsýkingar á þessu ári má rekja til landamæranna

Á tímabilinu frá 1. febrúar til 1. apríl greindust 202 virk COVID-19 smit á Íslandi. Af þeim greindust 105 á landamærunum og 97 innanlands. Á tímabilinu hefur rakning og raðgreining leitt í ljós að minnsta kosti þrjár stórar hópsýkingar, auk nokkurra smærri hópa sem myndast hafa út frá smitum á landamærum. Þetta kemur fram í nýju minnisblaði rakningarteymisins sóttvarnalæknis og almannavarna.

Stærsti hópurinn á þessu tímabili telur 48 smit og út frá smitunum fóru á annað þúsund manns í sóttkví. „Veirutýpan sem um ræðir í þessum hóp hafði ekki greinst áður hér á landi og því líklegt að um sé að ræða smit á landamærum sem ekki greindist,“ segir í minnisblaðinu. 

Næst stærsti hópurinn telur 12 smit. Einn greindist með COVID-19 í seinni sýnatöku eftir komu til landsins frá Póllandi og við smitrakningu kom í ljós að hann hafði ekki haldið sóttkví og því varð nokkur útbreiðsla á smitinu: 11 smituðust og á fjórða hundrað fóru í sóttkví. 

Þriðja hópsýkingin telur einnig 11 smit sem eru rakin til einstaklings sem greindist í seinni landamæraskimun, eftir komu frá Albaníu. „Næstu daga á eftir greindust fimm einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu utan sóttkvíar og leiddi raðgreining í ljós að þau tengdust öll þessu landamæratilfelli. Smitrakning sýndi að ekki hafi verið haldin fullnægjandi sóttkví við komu til landsins og smitið því náð að dreifa sér tiltölulega hratt,“ segir í minnisblaðinu. Eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði að stjórnvöldum væri óheimilt að skikka fólk í sóttvarnahús við komuna til landsins, og reglugerð þess efnis var felld út gildi, sagðist sóttvarnalæknir hafa áhyggjur af því að smit bærist inn í landið og hleypti af stað nýrri bylgju ef ekki yrðu tryggðar fullnægjandi sóttvarnir á landamærunum. 

Könnunin sem fjallað var um hér að ofan styðst við úrtakshóp í Netpanel Félagsvísindastofnunar. Netpanellinn samanstendur af fólki 18 ára og eldra á landinu öllu sem hefur samþykkt að taka þátt í netkönnunum á vegum stofnunarinnar. Netpanellinn byggist á tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Söfnun í netpanel á sér stað jafnt og þétt og fylgst er vel með samsetningu hans. Meðal annars er þess gætt að dreifing kyns, aldurs, búsetu, menntunar og tekna sé sem líkust því sem hún er meðal allra landsmanna, 18 ára og eldri. Með því að tryggja gæði netpanelsins með framangreindum hætti er möguleiki á að alhæfa um niðurstöður rannsókna sem byggjast á svörum úr honum. Að meðaltali berast stofnuninni um 130 svör á degi hverjum.