Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tugir drepnir og herjað á lækna í Mjanmar

11.04.2021 - 04:12
epa09117791 Demonstrators carry homemade weapons during an anti-military coup protest in Mandalay, Myanmar, 06 April 2021. At least 570 people have been killed by Myanmar armed forces since the military took power with a coup d’etat on 01 February 2021, while protests continue despite the intensifying crackdown on demonstrators.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir áttatíu mótmælendur voru drepnir af öryggissveitum í borginni Bago í Mjanmar á föstudag. Fréttastofa BBC hefur þetta eftir vitnum. Herinn er sagður hafa fjarlægt líkin, og því óljóst hversu margir voru í raun drepnir. Vitni segja hermenn hafa beitt öflugum vopnum og skotið á allt sem hreyfist. 

Nú hafa alls á sjöunda hundrað verið drepin í aðgerðum herstjórnarinnar gegn mótmælendum eftir valdaránið 1. febrúar. Morðin í Bago eru sögð hafa verið framin á föstudag, en það hafi tekið heilan dag að segja frá þeim þar sem margir íbúar neyddust til að flýja til nærliggjandi þorpa.

Læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn í Mjanmar sögðu í samtali við breska sunnudagsblaðið Observer að öryggissveitir sitji fyrir þeim. Þeir hafi ítrekað verið varaðir við því að hlúa að særðum fórnarlömbum öryggissveita. Þá hafi herinn ráðist inn á sjúkrahús og heilsugæslur, leitað í sjúkrabílum og skotið að þeim, auk þess að hafa handtekið, lamið eða drepið starfssystkin þeirra. 

Fjölmenn mótmæli hafa verið víða í Mjanmar frá því herinn rændi völdum og lýsti yfir neyðarlögum í eitt ár. Herinn vill meina að stórfellt kosningasvindl hafi tryggt Lýðræðisfylkingu fyrrverandi leiðtogans Aung San Suu Kyi örugga kosningu í nóvember. Flokkurinn hlaut þá hreinan meirihluta á þingi. Herinn rændi völdum rétt áður en nýtt þing átti að koma saman að morgni dags 1. febrúar. Þúsundir hafa verið handteknar, þar á meðal Suu Kyi og fjöldi flokkssystkina hennar.