Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Öskulag yfir nánast allri St. Vincent

11.04.2021 - 01:42
A road is blanketed in volcanic ash at the international airport in Kingstown, on the eastern Caribbean island of St. Vincent, Saturday, April 10, 2021 due to the eruption of La Soufriere volcano. (AP Photo/Orvil Samuel)
 Mynd: AP
Aska hylur nú stóran hluta eyjunnar St. Vincent í Karíbahafinu eftir kraftmikið eldgos í eldfjallinu La Soufriere. AFP fréttastofan segir vindinn einnig bera öskuna með sér um talsverða vegalengd, því hún er byrjuð að valda eyjaskeggjum á Barbados vandræðum, tæpum 200 kílómetrum austur af St. Vincent. Almannavarnir Karíbahafs hvetja íbúa Barbados til að halda sig innandyra á meðan öskuskýið leggst yfir eyjuna. 

Vefmiðillinn news784 í St. Vincent og Grenadine sagði að askan hafi legið eins og snjór yfir öllu á eyjunni í morgun. Skyggni víða í nágrenni við fjallið er verulega takmarkað, og í höfuðborginni Kingstown, sem er um þrjátíu kílómetrum suður af eldfjallinu, liggur þunnt öskulag yfir öllu.

Um 16 þúsund íbúar eyjunnar voru beðnir um að yfirgefa heimili sín fyrir helgi vegna yfirvofandi eldgoss. Þá hafa um þrjú þúsund manns þurft að gista í bráðabirgðaskýlum. Flugumferð yfir eyjunni liggur niðri vegna öskuskýsins.
La Soufriere gaus síðast árið 1979. Mikil skjálftavirkni hafði verið við gosstöðvarnar mánuðum saman áður en eldgosið hófst.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV