Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mikill hafís norðvestur af landinu miðað við árstíma

11.04.2021 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: Jarðvísindastofnun - RÚV
Talsvert mikill hafís er á Grænlandssundi og Íslandshafi miðað við árstíma samanborið við undanfarin ár. Þetta segir Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

„Hafísspöngin, sem var í um 16 sjómílna fjarlægð frá Kögri í gær, hefur færst fjær landi í dag eftir að vindur snerist til norðausturs síðastliðna nótt. Vestar er mjög þéttur hafísjaðar, sem gæti færst heldur nær landi í vikunni þegar aftur snýst til suðvestanáttar,“ segir Ingibjörg.

Landsins forni fjandi

Ef ísþekjan nú í aprílbyrjun er borin saman við aðstæður undanfarinna ára, sést að ísinn á Grænlandssundi og Íslandshafi er heldur meiri núna. Hann er þó ekkert í líkingu við aðstæður hafísáranna svokölluðu, þegar hafþök voru úti fyrir öllu Norðurlandi. Ingibjörg segir að það verði áhugavert að fylgjast með framhaldinu.

„Ísinn getur valdið truflunum við veiðar á miðunum, en á þessari stundu er ekki útlit fyrir að hann teppi siglingaleiðir fyrir Horn. Það er samt mikilvægt fyrir sjófarendur að fylgjast vel með og tilkynna allan hafís til Veðurstofunnar,“ segir Ingibjörg.

Meðfylgjandi er ratsjármynd sem numin var úr SENTINEL-1 ratsjártungli COPERNICUS EU, en hún gefur ísþekjuna til kynna óháð birtuskilyrðum og skýjahulu.

„Það kom sér vel í dag að hafa aðgang að slíkum gögnum, því hefðbundnar litmyndir úr gervitunglum sýna einkum skýjaþykknið yfir þessum svæðum í dag,“ segir Ingibjörg.