Gasmengun í byggð næsta sólarhring

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands nær gasmengun til byggða næsta sólarhringinn. Í nótt verður einhver mengun yfir norðanverðum Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu. Í fyrramálið verður líklega gasmengun yfir Vatnsleysuströnd.

Í nótt verður suðaustan og sunnan fimm til tíu metrar á sekúndu við gosstöðvarnar og snjókoma með köflum og hiti við frostmark. Áttin er suðvestlægari rétt ofan við jörð og má búast við gasmengun á norðanverðum Reykjanesskaga og á höfuðborgarsvæðinu.

Sunnan fimm til tíu metrar á sekúndu og slydda eða rigning með morgninum, en suðaustan átta til þrettán eftir hádegi. Hiti tvö til fimm stig. Gasmengunin leggst því líklega yfir Vatnsleysuströnd í fyrstu, en seinnipartinn yfir svæðið frá Vogum að Reykjanesbæ og vestur að Höfnum. Snýst í austan og norðaustan fimm til tíu og styttir upp um kvöldið, en mengunin berst þá í átt til Grindavíkur.

Gasmengunarspána má sjá sjónrænt á vef Veðurstofunnar.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV