Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Enginn við gosstöðvarnar í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Reynir Freyr Pétursson
Vel gekk að rýma svæðið við gosstöðvarnar við Fagradalsfjall í gærkvöld. Lögreglan segir að enginn hafi dvalið þar uppfrá í nótt og engin afskipti hafi verið höfð af fólki þar í gær. Allt hafi gengið vel fyrir sig.

Nokkur fjöldi fólks lagði leið sína að eldstöðvunum í gær til að berja nýju gígana sem opnuðust í vikunni augum. 

Sama fyrirkomulag opnunar verður viðhaft í dag. Lögregla og björgunarsveitarmenn verða á staðnum frá tólf á hádegi til miðnættis. Lokað verður inn á svæðið klukkan níu í kvöld og hefst rýming klukkan ellefu. Henni á að vera lokið fyrir miðnætti. 

Bjarney Annelsdóttir yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir að rýmingin hafi gengið vel í gær, og að það sé greinilegt að einhverjir hafi tekið daginn snemma í morgun, því nokkrir bílar voru komnir að bílastæðunum við gönguleiðina um klukkan sjö í morgun. 

Lögreglan ítrekaði tilmæli sín í morgun um að þeir sem ætla sér inn á svæðið fyrir kl. 12 í dag hafi það í huga að takmarkað eftirlit viðbragðsaðila er á svæðinu.  

„Gossvæðið er hættulegt og þá ekki síst vegna lélegra loftgæða. Þá hefur gönguleið  reynst mörgum erfið. Lögregla getur án fyrirvara lokað fyrir alla umferð inn að gosstöðvunum. Hættusvæði við gosstöðvarnar hefur verið merkt inn á kort sem hægt er að nálgast á Facebook síðu lögreglu og á vedur.is, heimasíðu Veðurstofu Íslands. Svæðið er ekki fyrir lítil börn, þau eru viðkvæm og nær jörðinni en þeir sem eldri eru og því útsett fyrir skaðlegum lofttegundum. Þeir sem klæða sig ekki vel hafa ekkert inn á svæðið að gera.“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Veðurstofan spáir suðaustan og sunnan 5-10 m/s á gosstöðvunum og snjókomu með köflum. Hiti við frostmark. Áttin er þó suðvestlægari rétt ofan við jörð og búast má við gasmengun á norðanverðum Reykjanesskaga og á höfuðborgarsvæðinu.
Sunnan 5-10 m/s og slydda eða rigning með morgninum, en suðaustan 8-13 eftir hádegi. Hiti 2 til 5 stig.

Gasmengunina ætti því að leggja yfir Vatnsleysuströnd í fyrstu, en seinnipartinn yfir svæðið frá Vogum að Reykjanesbæ og vestur að Höfnum. Snýst í austan og norðaustan 5-10 og styttir upp um kvöldið, en mengunin berst þá í átt til Grindavíkur.