Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Björgunaraðgerðir við námu í Kína

11.04.2021 - 06:14
Erlent · Asía · Kína
In this aerial photo released by Xinhua News Agency, shows rescue workers at a flooded coal mine in Hutubi county in of Hui Autonomous Prefecture of Changji, northwest China's Xinjiang Uyghur Autonomous Region on Sunday, April 11, 2021. Some miners were reported trapped after the coal mine flooded on Saturday. (Gao Han/Xinhua via AP)
 Mynd: AP
Björgunarfólk vinnur nú að því að reyna að ná 21 námuverkamanni upp úr kolanámu í Xinjiang héraði í Kína. Vatn flæddi ofan í námuopið og lokaði námuverkamennina inni, auk þess sem flóðið olli rafmagnsleysi. 29 verkamenn unnu að framkvæmdum í námunni þegar flóðið kom.

Búið er að bjarga átta úr námunni og greinir kínverska fréttastofan CCTV frá því að björgunarsveitir viti hvar hinir eru. Tólf eru saman á einu svæði í námunni, átta á öðru og einn er á flóttaleið þar sem vatn komst inn. Erfiðast er að komast að þeim sem eru tólf saman að sögn CCTV. Þeir eru á 1.200 metra dýpi og göngin eru flókin. Unnið er að því að dæla vatni úr göngunum og lofti inn í þau. 

Námuslys eru nokkuð algeng í Kína. Í janúar festust 22 ofan í námu í Shandong héraði eftir að sprenging skemmdi námuopið. Björgunarfólki tókst þá að bjarga ellefu verkamönnum, tíu fundust látnir og einn hefur ekki enn fundist. Í desember dóu 23 námuverkamenn sem festust neðanjarðar í borginni Chongqing, og nokkrum mánuðum áður dóu sextán úr kolmónoxíðseitrun í kolanámu í borginni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV