Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Biður leiðtoga að koma í veg fyrir átök

11.04.2021 - 03:10
epa09123332 General view of Nationalist youths stealing a car while clashing with Police on the Springfield Road in west Belfast, in Northern Ireland, Britain, 08 April 2021. Protests have been taking place across Northern Ireland by loyalists in the past week.  EPA-EFE/Mark Marlow
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Írski forsætisráðherrann Micheal Martin segir að stjórnmálaleiðtogar verði að grípa inn í atburðarásina í Norður-Írlandi til að koma í veg fyrir átök á milli trúarhópa og pólitíska sundrung í landinu líkt og á árum áður. Óeirðir hafa verið á nánast hverju kvöldi í Belfast og fleiri norður-írskum borgum undanfarna viku.

Fjórtán lögreglumenn slösuðust eftir að grjóti og bensínsprengjum var hent í áttina að þeim á föstudagskvöld. Alls hafa nærri níutíu lögreglumenn slasast í vikunni. Óeirðarseggir í Belfast rændu einnig bíl á föstudagskvöld, kveiktu í honum og ýttu í áttina að lögreglumönnum.

Engar fregnir hafa borist frá lögreglu um ólæti í Belfast í gærkvöld. Að sögn fjölmiðla var nokkuð rólegra yfirbragð yfir borginni í gær. Þá voru rétt 23 ár liðin frá undirritun friðarsamningsins sem kenndur er við föstudaginn langa. Þá var endi bundinn á um þriggja áratuga átök á milli sambandssinna og lýðveldissinna í Norður-Írlandi. 3.500 dóu í átökunum. 

Martin sagði í tilefni gærdagsins að kynslóðin sem undirritaði samninginn og kynslóðir framtíðarinnar eigi það inni hjá núlifandi kynslóð að draga Norður-Írland ekki aftur inn í myrka tíma blóðugra átaka trúarhópa og pólitískrar sundrungar. Hann sagði stjórnmálaleiðtoga bera skyldu til þess að taka af skarið og koma í veg fyrir að það geti gerst. 

Óeining og Brexit

Nokkrar ástæður eru fyrir ólátunum undanfarið. Ákvörðun yfirvalda um að láta vera að ákæra leiðtoga Sinn Fein fyrir að vera viðstadda fjölmenna jarðarför síðasta sumar olli mikilli reiði meðal sambandssinna. Arlene Foster, fyrsti ráðherra Írlands, sagði að það sýndi það greinilega að önnur lög giltu um þá en aðra. Samkomutakmarkanir voru í gildi síðasta sumar vegna kórónuveirufaraldursins, og voru of margir viðstaddir jarðarför fyrrverandi yfirmanns írska lýðveldishersins.

Áhrif Brexit á landamærin á milli Norður-Írlands og Írlands veldur einnig megnri óánægju meðal íbúa Norður-Írlands. Naomi Long, dómsmálaráðherra Norður-Írlands, segir ósannsögli Boris Johnson um áhrif Brexit á Norður-Írland hafa kynt undir reiði sambandssinna.