Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kallar eftir samráði við setningu reglugerða

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Formaður velferðarnefndar segir að samvinna við þá sem sjá um framkvæmd nýrrar reglugerðar heilbrigðisráðherra um aðgerðir við komuna til landsins hefðu átt að hafa meiri aðkomu að setningu hennar. Fyrri reglugerð var ekki í samræmi við lög.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður Vinstri grænna og Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins voru gestir í Vikulokunum í morgun. Öll eiga þau sæti í velferðarnefnd þar sem Helga Vala gegnir formennsku.

Helga Vala segir að eftir að nefndarmenn fóru til fundar við forsvarsmenn sóttkvíarhótelsins í gær hafi runnið upp fyrir henni og öðrum nefndarmönnum að þeir sem framfylgja reglunum hefðu þurft að koma að setningu reglugerðarinnar. 

„Það var mjög dýrmætt að koma þangað og heyra nákvæmlega hvernig framkvæmdin er þar og hvers vegna ekki er hægt að fara í ákveðin atriði sem þó standa núna í reglugerð. Og þá veltir maður fyrir sér hvort að heppilegt væri mögulega að vera í betri og nánari samráði við framkvæmdaaðila áður en reglugerðir eru settar. Ég held að það sé mikilvægt og mikilvægur lærdómur og eiginlega óskiljanlegt að svo hafi ekki verið áður en reglugerðin nýja var sett,“ segir Helga Vala.

Fólk sem þurfti að dvelja á sóttvarnahótelinu síðustu helgi og fram eftir vikunni fékk ekki að fara út af hótelherberginu til að viðra sig, eins og aðrir sem eru í sóttkví hafa mátt gera. Ólafur Þór segir að það sé mikilvægt að tryggja þeim sem dvelja í sóttkvíarhótelum útivist á meðan á sóttkví stendur.

„Ég held að það hafi verið afar óheppilegt að gera ekki ráð fyrir því að fólk geti haft einhverja útivist. Vegna þess að við leyfum hana og höfum leyft hana í einhverjum mæli þó að fólk sé í sóttkví. Kannski kann vel að vera að ég komi að þessari hugsun með örlítið annarri nálgun en margir aðrir út af mínum bakgrunni en ég skil alveg þessar vangaveltur með að fólk þurfi að komast út undir bert loft,“ segir Ólafur. Rétt er að taka fram að Ólafur er menntaður læknir. 

Miklu meiri framkvæmd en fólk gerir sér grein fyrir

Eins og gefur að skilja eru sóttvarnir í hávegum hafðar á sóttkvíarhótelinu sem og í farsóttahúsum. Fulltrúar velferðarnefndar sem sóttu hótelið heim í gær urðu undrandi yfir því hversu flókið það er að ganga úr skugga um að smit geti ekki borist á milli gesta þar.

„Sextán hæða hótel þar sem fólk má ekki mætast á göngunum, það gengur ekki því þá er komin smithætta. Þannig að það má bara einn vera á ferðinni í einu. Í hvert skipti sem einhver fer  inn í lyftu, upp eða niður, þá er hún sótthreinsuð á milli, og það tekur einhvern tíma að sótthreinsa alla hnappa og lyftuna eftir hvern einasta umgang. Þegar maður áttar sig á þessu, hversu miklar sóttvarnaráðstafanir eru þarna inni, við að hver einasti einstaklingur labbar inn eða út af hótelinu þá áttar maður sig á því hversu ómögulegt er að leyfa útiveru á þessum hótelum,“ segir Helga Vala.

Ekki rétt að setja alla á risastórt hótel í Reykjavík

Vilhjálmur segist ekki skilja þá ráðstöfun að hafa sóttvarnahótelið í Reykjavík þar sem keyra þarf fólk í rútum í stað þess að finna því stað suður með sjó.

„Ég hef ekki skilið af hverju það þurfti að hrúga öllum í rútu en þau mega ekki mætast á ganginum en vera eins og sardínur í rútu þar sem er keyrt fram hjá atvinnuleysinu og tómu hótelunum á Suðurnesjum og inn til Reykjavíkur. Ég skil þetta ekki,“ segir Vilhjálmur.

Meira rými sé á hótelum þar til að tryggja fólki útivist auk þess sem atvinnuleysi er mest á landsvísu á Suðurnesjum. Ólafur Þór svaraði því þannig til að það væri til að hafa úrræði nær hvert öðru og samnýta mannskap og fleira slíkt.

Segir ríkisstjórnina tala tungum tveim

Helga Vala segir skilaboð ríkisstjórnarinnar ekki nægilega skýr hvað varðar aðgerðir á landamærum. Annars vegar tali ráðherrar innan Sjálfstæðisflokks fyrir því að opna landið, í trássi við ráðleggingar sóttvarnalæknis, en ráðherrar Vinstri grænna tali um að fylgja tilmælum hans í hvítvetna.

„Ég tel miklu mikilvægara núna að við verjum landamærin eins og við getum svo að við getum lifað sem eðlilegustu lífi,“ segir Helga Vala. Jafnframt sagði hún að til að mynda veitingamenn hafi skipt um skoðun hvað varðar opnun landamæra þar sem innlend viðskipti hafi tekið við sér.

Vilhjálmur var ekki sammála þessum málflutningi og sagði Helgu Völu vera að slá Íslandsmet í rangtúlkunum og röngum staðhæfingum.

„Við skulum hafa það alveg á hreinu að stjórnvöld hafa nú í töluverðan tíma haft töluvert strangar hindranir á landamærum og það er ekki verið að slaka neitt á þeim, ekki neitt, og það hefur enginn kallað eftir því,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að eina breytingin sé sú að bólusetningarvottorð utan Schengen-ríkja séu tekin gild, en það telji hann ekki sem opnun. Sóttvarnalæknir hafi ekki skilið það ósamræmi sem var í þeim efnum á milli ríkja. 

Vikulokin má heyra í heild sinni hér að ofan. Þar má einnig heyra umræðu um eldsumbrotin á Reykjanesskaga.