Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Gosmengun mæld í plastkössum

10.04.2021 - 20:21
Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Mengun hefur til þessa ekki mælst mikil í þéttbýli af völdum gossins. Fylgst er grannt með og er afar einfaldur búnaður notaður við mælingarnar. 

Það er nokkuð undarleg sjón að sjá mann ganga berhentan í kulda og skafrenningi með tóman plastkassa úti á víðavangi. Erindagerðin er þó merkileg. 

Því á grýttum hóli bíður annar kassi eftir því að vera tekinn í burtu enda búinn að gegna hlutverki sínu í þetta sinn með því að safna úrkomu í föstu eða fljótandi formi. 

Maðurinn eða veðurfræðingurinn nánar til tekið fer með hann í bílinn og setur hann í upphitað sæti svo innihaldið bráðni. 

„Við höfum áhyggjur af því að þetta eldgos muni senda einhver efni inn í skýjahjúpinn að ofan,“ segir Árni Sigurðsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Fylgst er með sýrustigi úrkomunnar og athugað er hvort t.d. þungmálmar, brennisteinn og flúor finnist í sýnunum. 

„Við vitum ekki alveg ennþá hversu langt þetta berst frá eldstöðinni. En við höfum verið að mæla upp við eldstöðina.Og þar er mjög súr úrkoma. Og efni langt yfir viðmiðunarmörkum þar. En við höfum ekki verið að mæla mikið í byggð. “

Mælakassarnir eru meðal annars við Grindavík, Voga, Kúagerði, Hafnarfjörð, Reykjavík og Keflavíkurflugvöll.

Flúor er skaðlegur dýrum. Ekki er mælt með að fara með hunda að gosstöðvunum. En fólk og kannski helst börn þurfa að passa sig. 

„Við megum ekki vera að smakka á snjónum til dæmis.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Árni Sigurðsson.