Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Gasmengun frá gosinu berst til höfuðborgarsvæðisins

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Gasmengun frá gosstöðvunum nær nú yfir höfuðborgarsvæðið. Á fimm mælingastöðvum Umhverfisstofnunar mælist staða loftmengunar slæm eða miðlungsslæm.

Að sögn Salóme Jórunnar Bernharðsdóttur náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands varð örlítil vindáttarbreyting til þess að mengunin barst ekki yfir Voga eins og búist hafði verið við.

Hún segir vind verða vestanstæðari í kvöld og þá geti mengunin borist í átt að Hengilssvæðinu. Salóme brýnir fyrir fólki að fylgjast grannt með gasmengunar- og veðurspám. 

Mengunargildi á höfuðborgarsvæðinu eru um nú um 200 míkrógrömm á rúmmetra sem að sögn Þorsteins Jóhannssonar sérfræðings í loftgæðamálum hjá Umhverfisstofnun telst ekki mjög hátt meðan á eldgosi stendur.

Þó geti þau sem eru mjög viðkvæm fyrir fundið fyrir óþægindum og ekki er ráðlagt að láta börn sofa úti. Á vef Umhverfisstofnunar má sjá nánari útlistun viðbragða við loftmengun af völdum eldgoss. 

Ráðleggingar Umhverfisstofnunar miða við að dvalið sé í 10-15 mínútur í loftmenguninni.

Sé dvölin lengri má búast við meiri heilsufarsáhrifum. Tilgangur þessara leiðbeininga er meðal annars að tryggja að dagleg starfsemi geti gengið sinn vanagang, eins og frekast er unnt, án þess að skaða heilsu fólks.

Sem dæmi, ef styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) er 700 míkrógrömm á rúmmetra, sem er tvöfalt yfir heilsuverndarmörkum mætti líklega búast við einkennum hjá viðkvæmum einstaklingum eftir tíu til fimmtán mínútna dvöl utandyra.

Fólk gæti ferðast til og frá vinnu og skóla. Skólastarf færi að mestu fram með eðlilegum hætti en börn ættu ekki vera að leik utandyra.