„Ég er fæddur með silfurskeið í munni“

Mynd: Eyjólfur Kristjánsson / Facebook

„Ég er fæddur með silfurskeið í munni“

10.04.2021 - 14:17

Höfundar

„Ég hljóp af mér hornin í 37 ár áður en Sandra mín dáleiddi mig,“ segir Eyjólfur Kristjánsson tónlistarmaður. Hann lýsir sjálfum sér sem dekurbarni og mömmustrák úr Vogunum sem fagnar sextíu ára afmæli en líka brúðkaupsafmæli í ár, auk þess sem hans fyrsta barnabarn er á leiðinni.

Eyjólfur Kristjánsson, eða Eyfi eins og hann er gjarnan kallaður, fagnar sextugsafmæli 17. apríl en daginn áður kemur hann fram á stóru sviði á svokölluðum fjartónleikum ásamt Björgvini Halldórssyni stórvini sínum sem sjálfur verður sjötugur þann dag. Þeir hafa áður troðið upp saman á stórafmælum sínum, eða fyrir tíu árum síðan, og þá mætti fjöldi fólks á tónleika og fagnaði með þeim. Nú getur enn meiri fjöldi fylgst með tónleikunum en bara í streymi vegna samkomutakmarkanna. Og í stað þess að halda fjölmennt stórafmæli ætla nokkrir félagar úr vinahóp sem þeir kalla Hádegiskettina að hittast og borða hádegisverð saman.

Eyjólfur hafði hugsað sér að fagna sex tugunum með stórtónleikum og veislu en hefur í staðinn ákveðið að fresta því um eitt ár og verða tónleikarnir haldnir 9. apríl 2022. Þeir munu bera heitið Eyfi 61/61 því hann er fæddur árið 1961 og verður 61 árs þá.

Fyrsta afabarnið er á leiðinni

En það er ýmsum fleiri áföngum að fagna í ár. Faðir Eyfa er fæddur árið 1921 og hefði orðið hundrað ára á þessu ári og hjónin Eyjólfur og Sandra Lárusdóttir konan hans eiga tuttugu ára brúðkaupsafmæli, auk þess sem að í ár eru akkúrat 40 ár síðan fyrsta lag hans kom út. Í ár, jafnvel bara á næstu klukkutímum, eignast Eyfi líka sitt fyrsta afabarn en eldri dóttir hans af tveimur er barnshafandi. „Dóttir mín er komin á steypirinn,“ segir hann stoltur. „Þetta er fyrsta afabarnið, ég byrjaði svo seint. Ég hljóp af mér hornin í 37 ár áður en Sandra mín dáleiddi mig.“

Horfir sjaldnar í spegilinn og hefur gaman að lífinu

Honum finnst ekkkert nema fagnaðarefni að vera kominn á sjötugsaldur, en það var minnisstætt áfall að verða þrítugur. Síðan hefur hann tekið hverju ári fagnandi enda segist hann kunna töfralausnina. „Það er bara að horfa sjaldnar í spegilinn og hafa gaman að lífinu. Það er bara það sem maður á að gera.“ Aldrei hefði honum þó dottið í hug þegar hann var að stíga sín fyrstu skref í bransanum að hann væri enn að sextíu ára gamall. „Tvítugur var maður bara að hugsa um eitthvað allt annað, ég var ekki einu sinni búinn að sjá fyrir mér að ég yrði tónlistarmaður til frambúðar.“

Fyrsta lagið sendi hann frá sér með Vísnavinum á plötunni Heyrðu sem kom út 1981. Lag Eyfa heitir Mánudagur og var eftir að platan kom út gjarnan spilað á Rás 1 á mánudögum. „Þulirnir voru að skjóta þessu á undan fréttum og þetta var tiltölulega mikið spilað,“ segir hann. „Manni þótti það frábært og leið svo vel.“

Hætti að reykja og syngur enn í sömu tóntegund og í byrjun

Eyfi sér ekki fyrir sér að troða upp nema í mesta lagi í tíu ár í viðbót, jafnvel skemur, og þetta segir hann þó hann sé við hestaheilsu. „Ég er í fullu fjöri að syngja lög í sömu tóntegundum og þegar ég var yngri.“ Hann þakkar úthaldið því að hann hugar að heilsunni. „Ég hætti að reykja fyrir all nokkru og það hefur haft góð áhrif á röddina. Ég get þetta alveg ef ég held mér í formi en ég mætti alveg vera í betra formi. En ég er allavega ekki að fara illa með mig með áfengi og tóbaki.“

Dekurbarn og mömmustrákur

Eyjólfur er yngstur af sex systkinum. Faðir hans var heildsali og vel efnaður en hann rak heilsöluna Kr Þorvaldsson sem flutti inn gallabuxur og vefnaðarvörur. „Ég er fæddur með silfurskeið í munni og alinn upp af miklum efnum.“ Hann sleit barnskónnum í Vogahverfinu og var alltaf mikill mömmustrákur og dekurbarn. „Ég held það hafi haft áhrif á mig fyrstu árin. Sem betur fer gerði ég mér grein fyrir því þegar ég þroskaðist að ég væri dekurbarn og reyndi aðeins að komast úr þeirri krísu.“ Hann gekk í Vogaskóla, spilaði fótbolta og handbolta með Þrótti, var efnilegur markmaður í handbolta og æfði með Sigga Sveins og fleiri handboltakempum. „Þegar maður hefur þor í að fara á móti svoleiðis mönnum þá gengur þetta mjög vel.“

Var feiminn að syngja fyrir framan sætar stelpur

Handboltinn vék loks að mestu fyrir skíðamennskunni og árið 1979 kenndi Eyfi skíði í Kerlingarfjöllum og spilaði þar líka á kvöldvökum ásamt Sigurði Guðmundssyni frá Leirá, Valdimar Örnólfssyni og Eiríki Haraldssyni. „Þeir eru allir á lífi í dag, frábærir gæjar og ég á þeim mikið að þakka því þeir eru frábærir og hálfpartinn gerðu mig að manni,“ segir hann. „Ég kem þarna mjög ungur og dekraður en það voru engin mamma og pabbi, það var ekki einu sinni rafmagn. Þetta herti mann gífurlega mikið að vera svona einn í burtu frá foreldrahúsum og maður þurfti að standa með sjálfum sér.“

Á kvöldvökum í Kerlingarfjöllum vandist hann því í fyrsta sinn að koma fram fyrir framan fólk en minnist þess að fyrst hafi hann verið feiminn. „Sérstaklega á unglinganámskeiðum þegar það voru sætar stelpur og svona og maður var ekki alveg viss með sjálfan sig hvort þær myndu hlæja.“

Mjög svekktur út í stjórnvöld

COVID hefur ekki sett jafn stórt strik í bókhaldið hjá Eyfa og hjá mörgum kollegum hans því hann rekur vinsæla meðferðarstofu í Kópavogi sem nefnist Heilsa og útlit og hún hefur haldið þeim á floti. „Öfugt við marga kollega mína í bransanum stend ég ágætlega í COVID. Þetta er búið að fara illa með okkur tónlistarmenn og þá ég ætli ekki að tala um það ætla ég bara að segja að ég er mjög svekktur út í stjórnvöld,“ segir hann ómyrkur í máli. „Ég hef fengið einhverja styrki sem eru kannski einn tíundi af því sem ég er með í laun, en að vera með landamærin svona rosalega opin, ég bara þoli það ekki. Það er bara svoleiðis.“

Skemmtilegt að Nína skyldi festast í hjörtum Íslendinga

Nú styttist í Eurovision og þrátt fyrir að hafa aldrei sigrað í keppninni eiga framlög okkar mörg stóran sess í þjóðarsálinni. Þar er lagið Nína í flutningi Stebba, Stefáns Hilmarssonar, og Eyfa einna fremst í flokki.

Þegar þeir koma fram og flytja lagið fyrir áhorfendur er oftast nánast tilgangslaust fyrir þá að syngja, svo kröftuglega tekur áhorfendaskarinn undir. „Þetta er ákaflega skemmtilegt að þetta lag skyldi verða svona vinsælt og festast í hjörtum Íslendinga, sérstaklega því okkur gekk ekkert sérstaklega vel með lagið í Eurovision.“

Rætt var við Eyjólf Kristjánsson í Mannlega þættinum á Rás 1.