Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vísindamenn vara við gosferðum og hættulegu gasi

Gasmengun úr gosstöðvunum hefur tvöfaldast með tilkomu fleiri gossprunga og vara vísindamenn við ferðum þangað. Fólk með viðkvæm öndunarfæri, lítil börn og þungaðar konur ættu ekki að fara að gosinu. Hraunbrúnir, undanhlaup og mengun geta reynst banvæn. Engin vakt verður á svæðinu fyrir hádegi um helgina.

Gosstöðvarnar verða opnar til klukkan níu í kvöld og rýmingu lýkur á miðnætti. Þau sem fara á svæðið fyrir hádegi um helgina gera það á eigin ábyrgð og ítrekar lögreglan að svæðið sé hættulegt, ekki síst vegna gasmengunar. Nú er unnið að kortlagningu nýrrar gönguleiðar í ljósi atburða síðustu daga. Enn geta nýir gígar opnast og gossprungur lengst með litlum eða engum fyrirvara. Nú er hraunið orðið mjög útbreitt þannig að það er erfitt að ætla að vera í skjóli neðarlega í brekkum og vera í friði frá gasinu.  

Kvikumagnið hefur tvöfaldast með tilkomu seinni gíganna og gasmengun tvöfaldaðist þannig sömuleiðis. Fólk með viðkvæm öndunarfæri ætti alls ekki að fara að gosstöðvunum. Sama á við um þungaðar konur og lítil börn. Lofttegundirnar sem losna úr eldgosum geta verið banvænar. 

„Brattar hraunbrúnir, eins og eru núna, geta verið mjög óstöðugar. Það getur skyndilega hrunið úr þeim. Það var þannig sem eina banaslysið á Íslandi, á 20 öld, þar sem fólk varð undir gosefnum, það varð í Heklugosinu 1947 þegar Steinþór Sigurðsson jarðfræðingur varð fyrir hrauni úr hraunbrúninni í Heklugosinu og lést,” segir Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur. „Annað atriði eru undanhlaup. Það er að skyndilega brjótist út úr hraunbrúninni glóandi kvika og hún getur farið mjög hratt.”

Veðurstofan vaktar breytingar á eldgosinu allan sólarhringinn. 

„Og íbúar verða látnir vita í gegn um almannavarnir, þannig að það eiga allir að geta sofið rótt þó að það sé eldgos svo til í bakgarðinum,” segir Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur.