Samúðarkveðjur streyma til Elísabetar

09.04.2021 - 12:49
epa08928542 (FILE) - Britain's Queen Elizabeth II (L) and Prince Philip, The Duke of Edinburg, leave St. Paul's Cathedral in London, Britain, 10 June 2016 (reissued 09 January 2021). According to Buckingham palace, the royal couple have received vaccinations against COVID-19. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: FACUNDO ARRIZABALAGA - EPA-EFE
Filippus prins, eiginmaður Elísabetar Englandsdrottningar, lést í morgun. Hann var giftur Elísabetu í yfir sjö áratugi en hafði síðustu æviárin glímt við erfið veikindi. Samúðarkveðjur hafa borist konungsfjölskyldunni frá þjóðarleiðtogum um allan heim frá því í morgun.

Filippus lést í Windsor-kastala í morgun. Hann var 99 ára en hefði orðið 100 ára í júní. Hann kvæntist Elísabetu 1947, fimm árum áður en hún varð drottning og fáir hafa því þjónað bresku krúnunni jafn lengi og hann. Hann settist í helgan stein árið 2017 og hafði þá sinnt vel á þriðja tug þúsunda embættisverka án drottningar og flutt hátt í sex þúsund ræður. Hann og Elísabet eignuðust fjögur börn, þau Karl, Önnu, Andrés og Játvarð.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sendi samúðarkveðjur fyrir hádegi og sagði að Filippus hefði lifað einstöku lífi. Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði að Filippus hefði verið einstakur maður með skýra framtíðarsýn sem hefði breytt miklu fyrir konungsfjölskylduna. George W. Bush sendir samúðarkveðjur frá Bandaríkjunum og segir að mikil reisn hafi verið yfir störfum Filippusar fyrir breska konungsveldið og undir þetta tekur fjöldi þjóðarleiðtoga. 

Filippus var þekktur fyrir ansi sterkar skoðanir og barðist fyrir því á seinni helmingi síðustu aldar að færa konungsfjölskylduna úr gamla tímanum og meira í ætt við nýja tíma. Honum var oft lýst sem klaufskum þegar kom að fjölmiðlum og fékk oft að finna fyrir því hjá bresku pressunni. Eitt af því sem vakti hvað mesta athygli var í fyrstu og einu opinberu heimsókn þeirra hjóna til Kína. Þar ræddi Filippus við nemendur frá Edinborgarháskóla sem voru að læra kínversku, og sagði eitthvað á þá leið að þau yrðu farin að píra augun eftir mörg ár í Kína. Þetta hneykslaði marga Breta og var fjallað um í bresku pressunni lengi á eftir, en vakti ekki sérstaka athygli í Kína. 

Filippus var almennt talinn standa sig vel við hlið konu sinnar, og var af ýmsum lýst sem varðmanni sem hefði lagt sinn frama á hilluna til að styðja Elísabetu. Hann kom að ýmsum góðgerðasamtökum í áranna rás sem sneru meðal annars að náttúruvernd, vísindum og heilbrigði barna. Hann hafði verið hjartveikur undanfarin ár en var útskrifaður af sjúkrahúsi um miðjan síðasta mánuð eftir að hafa legið inni í tæpan mánuð eftir hjartaaðgerð. Kon­ungs­fjöl­skyld­an sam­ein­ast fólki um all­an heim í sorg sinni, seg­ir í tilkynningu frá konungsfjölskyldunni en ekki liggur fyrir hvenær Filippus verður borinn til grafar.