Eldgos eru eins og eitraður úðabrúsi

epa02401091 YEARENDER 2010 APRIL
 Mynd: EPA
Sérfræðingur í eiturefnafræði leggst alfarið gegn því að fólk með asma, hjarta- og lungnasjúkdóma, og ófrískar konur, fari að gosstöðvunum. Eitrunarmiðstöð Landspítalans hefur sérstakar áhyggjur af magni flúrsýru við gosið sem veldur ertingu í augum, húð og hálsi. Gasmengun frá eldgosum getur verið banvæn og nokkur fjöldi hefur leitað læknis vegna eitrunar.

„Það sem við höfum sérstakar áhyggjur af núna er flúrsýra, sem er mjög eitrað efni og sérstaklega ertandi fyrir augu og nef. Hún hefur verið að mælast í þó nokkuð miklu magni við gosstöðvarnar,” segir Helena Líndal, lyfjafræðingur og sérfræðingur í klínískri eiturefnafræði hjá Eitrunarmiðstöð Landspítalans.

Þurfti mikla aðhlynningu eftir gosið

Eitrunarmiðstöðin er opin allan sólarhringinn. Tíu símtöl hafa borist frá fólki eftir að hafa verið við gosstöðvarnar, meðal annars vegna ertingar í augum. Læknar hafa einnig hringt og beðið um ráðleggingar vegna gossins. 

„Það hefur ekki verið mjög alvarlegt en íþyngjandi fyrir einstaklingana sem lenda í þessu. Það var einn með undirliggjandi asma og ég mundi ekki ráðleggja neinum með asma að fara á þessi svæði. Það voru verulegir öndunarörðugleikar og það þurfti að meðhöndla þann einstakling með svokallaðri friðarpípu,” segir Helena. 

„Ég mæli sérstaklega gegn því að fólk með undirliggjandi hjarta- eða lungnasjúkdóma, eða ófrískar konur, fari nálægt gosstöðvunum.” 

Mikil mengun skaðar menn, dýr, gróður og mannvirki

Almannavarnir hafa gefið út nýjan upplýsingabækling um þessar hættur. Hér skal reynt að draga fram aðalatriðin. 

Gjósandi eldstöð er eins og úðabrúsi sem dreifir fjölmörgum lofttegundum út í andrúmsloftið. Mengunin er, eðli málsins samkvæmt, mest næst eldstöðinni sjálfri en getur dreifst um langan veg. Mikil loftmengun getur skaðað menn, dýr, gróður og mannvirki. Algengasta lofttegundin er vatnsgufa, sem er skaðlaus. Eftirfarandi efni, sem losna líka, eru það hins vegar ekki: 

  • Brennisteinsdíoxíð, SO2, sem lyktar eins og flugeldar. Einkenni eitrunar eru: hósti, höfuðverkur og erting í augum, nefi og koki
  • Brennisteinsvetni, H2S, lyktar eins og úldin egg og einkennir hverasvæði. Ekki finna allir þessa lykt og getur það verið sérstaklega varasamt. Eitrunareinkenni eru: þreyta, lystarleysi, erting í öndunarfærum og bráðarugl. Mjög há gildi geta valdið yfirliði og skyndidauða. 
  • Koltvísýringur, CO2, er lyktarlaus og því sérlega hættulegur. Gasgrímur vernda ekki fyrir koltvísýringi. Eitrun veldur höfuðverk, svita, hröðum hjartslætti og öndunarörðugleikum. Alvarleg eitrun getur verið banvæn án fyrirvara. 

Súrt regn ertir húð og skemmir hluti

Öll gösin eru litlaus og þyngri en andrúmsloftið, svo þau leita niður. Þá er mikilvægt að hafa í huga að lyktarskyn fólks er misjafnt og lyktin venst. Börn, barnshafandi konur, aldrað fólk, hjarta- og lungnasjúklingar skulu ekki dvelja lengur en fimmtán mínútur á stöðum þar sem loftmengun er yfir heilsuverndarmörkum. 

Regn og snjókoma við eldgos er oftast súr af brennisteinssýru. Það getur valdið ertingu í húð, augum og nefi. Það flýtir líka fyrir ryði í málmum og getur skemmt bíla og mannvirki, auk þess sem það getur haft áhrif á lífríki í vatni.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Gasmælar eru mikilvægt öryggistæki en duga ekki alltaf til.