„Þetta er nú bara fótbolti“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

„Þetta er nú bara fótbolti“

08.04.2021 - 12:24
Alexandra Jóhannsdóttir landsliðskona í fótbolta segir Þorstein Halldórsson nýjan landsliðsþjálfara vissulega koma með sínar áherslur strax inn á landsliðsæfingar. Hann sé þó langt í frá að umturna öllu í kringum liðið.

Íslenska landsliðið dvelur nú þessa dagana á Ítalíu þar sem Ísland mætir heimakonum í tveimur vináttuleikjum, á laugardag og svo á þriðjudag. Þetta verða fyrstu landsleikir íslenska kvennalandsliðsins undir stjórn Þorsteins Halldórssonar sem tók við liðinu af Jóni Þór Haukssyni seint á síðasta ári.

„Hann er kominn með svolítið af áherslum sem Breiðablik var með. Þannig það er kannski ekki nýtt fyrir mér eða öðrum sem voru hjá honum í Breiðabliki. En það gæti kannski verið nýtt fyrir einhverjum. Gann er að leggja mikla áherslu á sóknarleikinn og mér finnst það bara geggjajð. Þetta eru engar svaka breytingar. Þetta er nú bara fótbolti,“ sagði Alexandra.

Krefjandi að fara í atvinnumennsku í heimsfaraldri

Alexandra gekk í raðir Eintracht Frankfurt í Þýskalandi frá Breiðabliki um miðjan janúar. Þó hún sé ánægð með vistaskiptin og alla umgjörð hjá félaginu viðurkennir hún að það sé krefjandi að flytja á nýjan stað í miðjum heimsfaraldri.

„Þetta er búið að taka svolítið á andlega. Að koma út og allt er lokað er erfitt. Maður mætir á æfingu og fer svo bara heima að slaka á. En mér finnst ég nú samt vera að komast betur og betur inn í hlutina og hef verið að bæta mig í tækniatriðum sem mér hefur þótt vera smá veikleiki hjá mér,“ sagði Alexandra á rafrænum fundi með fjölmiðlum í hádeginu.

Hún segir það mikið gleðiefni að vera nú með landsliðinu. „Ég hef hlakkað svo rosalega mikið til að koma á landsliðsæfingar. Maður finnur núna hvað það er gott að hitta íslensku stelpurnar og geta talað íslensku. Ég er svolítið núna bara komin aftur inn í þægindarammann minn,“ sagði Alexandra.

Ábyrgðin dreifist í fjarveru Söru Bjarkar

Sara Björk Gunnarsdóttir er ekki með íslenska landsliðinu á Ítalíu. Hún glímir við meiðsli og varð að draga sig út úr landsliðshópnum. Alexandra sem hefur spilað með Söru á miðjunni í síðustu landsleikjum segir pressuna á sér þó ekkert meiri þó að Sara Björk sé fjarverandi nú. „Ég held að allir miðjumenn liðsins muni stíga upp. Það kemur bara maður í manns stað.“

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú