
„Okkur var óneitanlega brugðið en mér heyrist nú á öllu að fólk sé að halda ró sinni. Eftir að hafa rætt við fulltrúa Almannavarna hef ég þær upplýsingar að menn telji þetta vera tiltölulega einangrað. Svo verður bara að koma í ljós hvernig þessu fleytir áfram. Þessi veira er náttúrulega óútreiknanleg,“ segir Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi.
Fimmmenningarnir vinna hjá ferðaþjónustufyrirtæki og eru fjögur þeirra í einangrun í starfsmannahúsi sem þau búa í, og einn í heimahúsi í Vík. Þorbjörg segist ekki hafa fengið upplýsingar um að fleiri hafi smitast eða þurft að fara í sóttkví.
„Samkvæmt mínum upplýsingum er þetta tiltölulega einangrað og þeir höfðu engin samskipti út fyrir sinn hóp,“ segir hún. „Auðvitað er fólk slegið og áhyggjufullt en þetta skerpir okkur kannski bara í sóttvörnunum og minnir okkur á að við þurfum að fara varlega,“ segir Þorbjörg.