Markaðssetja eldgosið fyrir erlenda ferðamenn

Mynd: Guðmundur Atli Pétursson / RÚV
Eldgosið á Reykjanesskaga gæti orðið einn flottasti áfangastaðurinn á Íslandi, segir fagstjóri hjá Íslandsstofu. Markaðssetning eldgossins fyrir erlenda ferðamenn er hafin og hefur bandarískur kvikmyndagerðarmaður og ljósmyndari meðal annars verið fenginn til þess að kynna gosið á Instagram-síðu sinni.

Skömmu eftir að eldgosið í Geldingadölum hófst fyrir tæpum þremur vikum hófst Íslandsstofa handa við að markaðssetja það fyrir erlenda ferðamenn. Samkvæmt talningu Íslandsstofu hafa verið skrifaðar yfir 11.000 greinar um gosið í erlendum miðlum, sem virðist vekja athygli.

„Já það vekur töluverða athygli og við finnum það,“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri hjá Íslandsstofu. „Við sjáum líka að það er mikið af myndefni sem er á samfélagsmiðlum og vefnum af gosinu. Það er líka að hjálpa til við að bera út hróður þess, ef svo má segja. Og við erum til dæmis með streymi á Visit Iceland vefnum okkar og við sjáum gríðarlega umferð þar inn.“

Ábyrg ferðahegðun

Íslandsstofa fór meðal annars í samstarf við bandaríska ljósmyndarann og kvikmyndagerðarmanninn Chris Burkard sem birti myndir og myndskeið af eldgosinu á Instagram-síðu sinni. Burkard er með 3,5 milljón fylgjendur á Instagram.

Haldið þið að eldgosið geti laðað erlenda ferðamenn hingað til lands, þegar aðstæður varðandi faraldurinn verða orðnar betri?

„Já þetta gæti náttúrulega orðið einn flottasti áfangastaðurinn á Íslandi. Og það er líka mjög áhugavert að sjá þennan áfangastað verða til innan Reykjanesjarðvangs, sem hefur það hlutverk að nýta jarðsögu svæðisins til verðmætasköpunar. Þannig að það eru gríðarleg tækifæri sem eru í þessu fólgin,“ segir Sigríður Dögg. „En að sama skapi er það ábyrgðarhluti að vera að markaðssetja viðburð á borð við eldgos, og það er mjög mikilvægt að ábyrg ferðahegðun sé til staðar þar.“

Þarf ekki einmitt að laga innviði þarna, áður en hingað koma þúsundir eða tugþúsundir ferðamanna?

„Jú, og sú vinna er nú þegar hafin. Og það er mikilvægt að horfa til þess að það er stutt síðan það byrjaði að gjósa og það hefur mjög margt gerst á stuttum tíma. En það er gríðarlega mikilvægt að innviðir séu mjög sterkir á þessum stað, og styðji við það að fólk geti skoðað gosið á ábyrgan hátt og sé ekki að valda álagi á innviði, og líka fyrir viðbragðsaðila á staðnum.“

Þegar landið opnast betur fyrir erlendum ferðamönnum, stefnið þið þá á að nota gosið gagngert til þess að laða hingað erlenda ferðamenn?

„Við sjáum fram á að eldgosið verði hluti af því sem við erum að nýta til þess að miðla upplýsingum um áfangastaðinn Ísland. Og þessi nýi áfangastaður verður örugglega einn af þeim sem við munum lyfta töluvert mikið þegar við förum að sjá ferðalög fara að hefjast á ný,“ segir Sigríður Dögg.