
Maður bjargaðist úr snjóflóði í Skálafelli
Lyftur á skíðasvæðum eru lokaðar samkvæmt fyrirmælum sóttvarnalæknis en fólk hefur getað farið á gönguskíði og í fjallaskíðamennsku.
Bob Van Duin, rekstrarstjóri í Skálafelli, segir að maðurinn hafi verið að skríða upp úr flóðinu þegar að var komið. Hann var þar á ferð með öðrum manni sem kom honum til aðstoðar. „Þetta gat ekki farið betur en þetta,“ segir Bob um það að maðurinn hafi sloppið ómeiddur.
Skíðasvæðin eru lokuð en starfsmenn eru á staðnum og vinna að viðhaldi og undirbúningi fyrir sumarstarfið. Þeir voru því á staðnum þegar snjóflóðið féll. Björgunarsveitarmenn og aðrir voru kallaðir út en útkallið afturkallað að stórum hluta þegar í ljós kom að maðurinn var kominn úr snjóflóðinu, sem mun ekki hafa verið djúpt.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að tilkynnt hafi verið um snjóflóðið klukkan 13:34 og að fljótlega hafi náðst samband við þann sem lenti í snjóflóðinu. Hann upplýsti þá að hann væri óslasaður. Þegar viðbragðsaðilar komu að klukkan tvö var maðurinn laus úr snjóflóðinu. Lögreglan minnir fólk á að fara varlega þegar það er á fjöllum og hafa meðferðis öryggisbúnað, svo sem snjóflóðaýlur.
Fréttin var uppfærð 15:20.