Sigurvegari Mastersmótsins fær ekki aðeins rúmlega tvær milljónir bandaríkjadala í verðlaunafé, heldur er það fyrst og fremst heiðurinn að vinna mótið og klæðast græna jakkanum í mótslok. Aðeins eru fimm mánuðir frá síðasta Mastersmóti. Það var haldið í nóvember, eftir að hafa verið frestað frá apríl í fyrra vegna kórónuveirunnar. Þá var það Bandaríkjamaðurinn Dustin Johnson sem bar sigur úr býtum. Hann er í hópi þeirra kylfinga sem taldir eru eiga bestar líkur á sigri í ár.
Mótið er ávallt haldið á hinum sögufræga Augusta National Golf Club velli í Georgíuríki Bandaríkjanna. Fyrstu kylfingar verða ræstir út klukkan 12:00 í dag að íslenskum tíma. Dustin Johnson fer af stað klukkan 14:30 og er í ráshóp með þeim Tyler Strafaci frá Bandaríkjunum og Englendingnum Lee Westwood.
Justin Thomas líklegastur?
Bandaríska sjónvarpsstöðin ESPN fékk í dag sérfræðinga sína til þess að spá fyrir um úrslit Mastersmótsins í ár. Af þeim 18 sem spáðu telja fimm þeirra að Justin Thomas muni klæðast græna jakkanum í fyrsta sinn. Fjórir eru á því að Jordan Spieth muni vinna mótið. Það yrði þá í annað sinn, en Spieth vann Mastersmótið 2015. Tveir af sérfræðingunum eru á því að Dustin Johnson muni verja titil sinn og tveir telja að Jon Rahm munni vinna. Aðrir sem nefndir voru en fengu aðeins eitt atkvæði voru Tony Finau, Cameron Smith, Collin Morikawa, Rory McIlroy og Bryson DeChambeu.
Tiger Woods sem næstoftast allra kylfinga hefur unnið Mastersmótið verður ekki með í ár þar sem hann er enn að jafna sig eftir bílslys. Woods vann mótið síðast árið 2019 og var það í fimmta sinn sem hann vann Mastersmótið. Aðeins Jack Nicklaus hefur unnið oftar eða sex sinnum.