Tiger á nánast tvöföldum hámarkshraða þegar slysið varð

epa09032785 Los Angeles County Sheriff's Deputies examine a Genesis GV80 SUV driven by US golfer Tiger Woods after it was placed on the roadway by a crane after being removed from a hillside at the scene of a single-vehicle crash in Rancho Palos Verdes, California, USA, 23 February 2021. According to a statement released by the LA County Sheriff, Tiger Woods was extricated from his vehicle and taken to the hospital.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA

Tiger á nánast tvöföldum hámarkshraða þegar slysið varð

07.04.2021 - 18:24
Rannsókn lögregluyfirvalda í Los Angeles-sýslu á tildrögum bílslyssins sem Tiger Woods lenti í í febrúar hefur leitt í ljós að bifreið kylfingsins var á um 140 kílómetra hraða þegar slysið varð. Það er nálægt því að vera tvöfaldur hámarkshraði. Tildrög slyssins voru því hraðakstur en ekki leikur grunur á því að Tiger hafi verið undir einhvers konar áhrifum.

Hámarkshraði á vegarkaflanum í Ranchos Palos Verdes í Los Angeles er 45 mílur á klukkustund sem er um 72 kílómetra hraði. Bifreið Tigers var hins vegar á um 87 mílna hraða þegar hún rakst á fyrstu hindrun sem er eins og áður sagði um 140 kílómetra hraði. 

Hraðinn var svo kominn niður í 75 mílur eða 120 kílómetra hraða á klukkustund þegar bifreiðin fór utan í tré eftir nokkrar veltur og staðnæmdist hún svo í runna nokkru síðar.

Bensíngjöfin í botni

Gögnin voru fengin úr ökurita Genesis bifreiðarinnar sem Tiger var á en slysið varð snemma morguns þegar kappinn var seinn fyrir á leið í tökur á sjónvarpsþætti.  

Samkvæmt ökuritanum var bensíngjöfin með 99% þrýsting allan tíminn sem slysið átti sér stað en lögregluyfirvöld telja að Tiger hafi ætlað sér að hemla en þrýst á bensísgjöfina í staðinn. 

Beita þurfti klippum til að ná Tiger út úr bifreiðinni en hann fór í kjölfarið í nokkrar aðgerðir á fæti og ökkla og jafnar sig nú á heimili sínu. Hann verður ekki sóttur til saka fyrir hraðaksturinn en samkvæmt vinnureglum lögreglu í Kalíforníu þarf vitni til að hægt sé að sakfella fólk fyrir hraðakstur.