Þuríður Erla jafnhenti 108 kg og setti um leið Íslandsmet í samanlögðu eða 191 kg, þar sem hún snaraði 83 kg á mótinu. Það er fjórum kílóum frá Íslandsmeti hennar í snörun, sem hún setti á EM 2019. Þuríður Erla varð í 2. sæti í B hluta 59 kg flokksins á EM í ár eða í 10. sæti samanlagt.
Einar Ingi Jónsson keppti svo í B-hluta 73 kg flokks karla í gær. Hann snaraði 114 kg og tók 145 kg í jafnhendingu og endaði í 7. sæti síns riðils. Amalía Ósk Sigurðardóttir varð áttunda í B-hluta 64 kg flokksins. Amalía lyfti samanlagt 179 kg. Hún tók 79 kg í snörun og 100 kg í jafnhendingu.
Síðastur Íslendinga til að keppa á EM í ólympískum lyftingum í Rússlandi verður svo Daníel Róbertsson sem keppir í B-hluta 89 kg flokks á morgun.