„Rosalega erfitt að vera verkjuð og glöð á sama tíma“

Mynd: Golfsamband Íslands / RÚV

„Rosalega erfitt að vera verkjuð og glöð á sama tíma“

07.04.2021 - 21:41
„Ég er búin að verja verkjuð í þrjú ár núna. Ég hafði alveg glímt við meiðsli áður en ekkert í líkingu við þetta. Núna var þetta bara komið gott,“ segir Valdís Þóra Jónsdóttir sem tilkynnti í dag að hún væri hætt atvinnumennsku í golfi.

Valdís Þóra hefur um árabil verið einn fremsti kylfingur Íslands og hefur hún mikið keppt á erlendri grundu síðustu ár. Hún segir meiðslin hafa tekið mikinn toll andlega.

Búið að leggjast þungt á sálina

„Það er bara rosalega erfitt að vera verkjuð og glöð á sama tíma. Það fer bara illa saman,“ segir Valdís og bætir við. „Þetta hefur bara reynt mikið á og lagst þungt á sálina. Síðustu vikur hafa verið sérstaklega erfiðar ekki síst vegna þess að ég reynt allt til að verða góð af meiðslunum.“

Valdís, sem á glæstan feril að baki sem inniheldur meðal annars þrjá Íslandsmeistaratitla í höggleik og Evrópumeistaratitil í liðakeppni, gengur þó sátt frá borði og útilokar ekki að keppa hér á landi í framtíðinni. 

„Ég hverf ekkert. Hver veit? Kannski verð ég einn daginn góð af meiðslunum og get notið þess að spila aftur. Þá mæti ég á Íslandsmótið og sæki fjórða titilinn,“ segir Valdís Þóra. 

Viðtalið við Valdísi má sjá í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Golf

Hætt í atvinnumennsku