PSG vann Evrópumeistarana í snjókomunni í München

epa09121205 PSG's Kylian Mbappe (L) in action against Bayern's Niklas Suele (R) during the UEFA Champions League quarterfinal, 1st leg soccer match between FC Bayern Muenchen and Paris Saint-Germain in Munich, Germany, 07 April 2021.  EPA-EFE/LUKAS BARTH-TUTTAS
 Mynd: EPA

PSG vann Evrópumeistarana í snjókomunni í München

07.04.2021 - 21:01
Paris Saint-Germain vann sterkan 3-2 útisigur á Evrópumeisturum Bayern München þegar liðin áttust við í fyrri leiknum í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. Í hinum leiknum vann Chelsea 2-0 útisigur á Porto.

Snjó kyngdi niður á Allianz-leikvanginn í München í kvöld en gestirnir frá París komust í 2-0 með mörkum frá Kylian Mbappe og Marquinhos eftir innan við hálftíma leik. 

Eric Maxim Choupo-Moting, fyrrverandi leikmaður PSG, lagaði stöðuna fyrir Bayern seint í fyrri hálfleik og Thomas Müller jafnaði metin á 60. mínútu. 

Mbappe var svo aftur á ferðinni á 68. mínútu þegar hann skoraði það sem reyndist sigurmark PSG og lokatölur 3-2 fyrir gestina. Liðin mætast í seinni leiknum í París á þriðjudag. 

Í hinum leik kvöldsins í 8-liða úrslitunum vann Chelsea sannfærandi 2-0 sigur á Porto. Leikið var í Sevilla á Spáni en leikurinn taldist sem heimaleikur Porto. Englendingarnir Mason Mount og Ben Chilwell skoruðu mörk Chelsea í leiknum en liðin mætast aftur í Sevilla á þriðjudag.