Hætt í atvinnumennsku

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Elvar Þórólfsson - GSÍ

Hætt í atvinnumennsku

07.04.2021 - 12:15
Kylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir hefur ákveðið að hætta sem atvinnukona í golfi. Frá þessu greinir hún á samfélagsmiðlum í dag. Valdís er einn fremsti kvenkylfingur Íslandssögunnar.

Í tilkynningunni segir Valdís að margar ástæður liggi að baki ákvörðun hennar. Sú ástæða sem vegi þyngst er að líkami hennar þoli ekki meira. „Ég hef ákveðið að hlusta á líkamann og segja þetta gott. Síðastliðna 4 mánuði hef ég fengið 15 sterasprautur í bakið og búið að fara inn á taugar og gefa þeim rafstuð, en í hvert sinn sem ég byrja að sveifla af fullum kfrafti aftur hafa verkirnir blossað upp af sama krafti,“ segir meðal annars í tilkynningu Valdísar.

Valdís Þóra keppti á sínu fyrsta risamóti í golfi þegar hún lék á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2017. Hún, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Haraldur Franklín Magnús eru einu íslensku kylfingarnir sem hafa spilað á risamótum í golfi. Þá var Valdís ásamt Ólafíu, Birgi Leifi Hafþórssyni og Axel Bóassyni sem skipuðu blandað landsliðs Íslands sem varð Evrópumeistari liða árið 2018.

Valdís varð í 9. sæti í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins 2017 og var hluti af íslenska landsliðinu í golfi sem var kjörið lið ársins í sama kjöri 2018. Tilkynningu Valdísar má lesa í heild sinni í með því að smella á myndirnar í Twitter færslu hennar sem sjá má hér fyrir neðan.