Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fleiri óttast að smitast af COVID-19

07.04.2021 - 16:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ótti landsmanna við að smitast af COVID-19 hefur aukist að undanförnu og áhyggjur af heilsufarslegum og efnahagslegum áhrifum faraldursins á Íslandi hafa aukist mikið samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups.

Alls óttast 29 prósent svarenda frekar eða mjög mikið að smitast af veirunni.

53 prósent segjast hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum COVID-19 og 62 prósent hafa áhyggjur af efnahagslegum afleiðingum. 

Þeim fjölgar sem segja ríkisstjórnina vera að gera of lítið til að fyrirbyggja- eða bregðast við neikvæðum efnahagslegum áhrifum tengdum faraldrinum, en 29 prósent svarenda eru þeirrar skoðunar. 

Versla frekar á netinu og forðast fjölsótta staði

Þá fjölgar mikið sem finna fyrir kvíða vegna faraldursins. 46 prósent þeirra sem svöruðu könnuninni segjast finna fyrir frekar, mjög eða gífurlega miklum kvíða vegna hans. Þá hefur þeim fjölgað sem versla frekar á netinu, forðast fjölfarna staði, þvo og spritta umhverfi sitt oftar og kaupa frekar inn þannig þau eigi umframbirgðir.

Könnunin var gerð á netinu 25.mars - 7. apríl 2021. 827 af 1603 manna úrtaki svöruðu könnuninni, eða 51,6 prósent. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV