Eignuðust þríbura: „Ég held að þetta sé búið hjá okkur“

06.04.2021 - 19:24
Mynd: - / Aðsend mynd
Par á þrítugsaldri sem eignaðist þríbura á skírdag hyggur ekki á frekari barneiginir, en fyrir átti parið eitt barn. Þau segja að tilfinningin sé bæði óraunveruleg og „sturluð“, og að þau séu búin að kaupa sér bæði rútu og stærra húsnæði. Börnunum heilsast vel.

Það er ekki á hverjum degi sem þríburar fæðast hér á landi, en það gerðist á skírdag þegar Hönnu Björk Hilmarsdóttur og Arnari Long Jóhannssyni fæddust tveir drengir og ein stúlka. Eftir því sem fréttastofa kemst næst er þetta í fyrsta skipti í fjögur ár sem þríburar fæðast hér á landi.

Arnar og Hanna segja að það hafi verið ákveðið áfall að fá þær fréttir í snemmsónar að von væri á þremur börnum.

„Við tókum sjokkið út á sitt hvorn háttinn. Ég fór bara að hlæja og varð kjánalegur, „þetta er geggjað maður“, en hún fer eiginlega að gráta bara. Þannig að við tökum sjokkið í sitt hvora áttina,“ segir Arnar.

„En horfandi til baka myndi maður ekki vilja hafa neitt öðruvísi. Þetta er æðislegt,“ bætir hann við. „Ég fékk þau öll þrjú í fangið í fyrsta skipti í gær. Og þetta er bara óraunveruleg tilfinning. Algjörlega sturlað bara.“

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Hér má sjá lengri útgáfu af viðtalinu við Hönnu og Arnar.

Óraunverulegt ferli

Hanna fór ekki i glasafrjóvgun, en mikið er um tvíbura í hennar ætt. Hún segir að meðgangan hafi gengið mjög vel, þótt bumban hafi vissulega verið orðin mjög stór. Börnin voru tekin með keisaraskurði eftir þrjátíu og þriggja vikna meðgöngu. Þau voru 1.924, 2.200 og 2.310 grömm.

„Og við erum komin með öll þrjú í hendurnar, eða þau voru öll komin í heiminn um sex, sjö tímum seinna. Það skeði mjög hratt þegar þetta skeði,“ segir Arnar. „Sérstaklega þegar maður bjóst ekki við þeim þennan dag,“ segir Hanna. „Þetta er búið að vera svolítið óraunverulegt ferli sko.“

Hvernig hafa litlu krílin það?

„Bara æðislegt. Þau eru bara að standa sig eins og hetjur,“ segir Hanna.

Fyrir eiga Arnar og Hanna eins árs strák, og þau eru því orðin stoltir fjögurra barna foreldrar.

„Búin að kaupa okkur rútu,“ segir Hanna í léttum dúr.

„Og stækka við okkur húsnæði. Þannig að það er pláss fyrir alla,“ bætir Arnar við.
 
Þau eru búin að ákveða nöfn á þríeykið en eðli málsins samkvæmt verða nöfnin ekki gefin upp á þessu stigi.

Ætlið þið að eignast fleiri börn?

„Nei,“ segir Hanna ákveðin.

„Kannski eftir tíu ár,“ segir Arnar.

„Nei, ekki séns,“ mótmælir Hanna.

„Nei, ég held ekki. Ég held að þetta sé búið hjá okkur,“ segir Arnar.

Skyggnst verður inn í líf fjölskyldunnar í sérstökum heimildarþætti sem sýndur verður á RÚV á næsta ári.