„Er þetta rosalega slæmt, eða slæmt?“

Mynd: Bjarney Lúðvíksdóttir / HTB

„Er þetta rosalega slæmt, eða slæmt?“

05.04.2021 - 08:43

Höfundar

Brynjar Karl Birgisson vakti mikla athygli þegar hann, ellefu ára gamall, byrjaði að kubba gríðarstórt líkan af Titanic úr LEGO-kubbum. Líkanið varð fyrir skemmdum þegar það var flutt á milli landa árið 2017.

Hvernig Titanic varð björgunarbáturinn minn er ný íslensk heimildamynd um Brynjar Karl sem byggði stóra eftirmynd Titanic úr meira en 50.000 LEGO-kubbum. Myndband um skipasmíðina fór á flug á netinu og Brynjar Karl er nú þekktur sem LEGO-Titanic-smiðurinn. Myndin verður sýnd á RÚV á annan í páskum.

Brynjar, sem er á einhverfurófinu, langaði til að sigrast á þeim einkennum einhverfunnar sem halda aftur af honum og verða virkur þátttakandi í samfélaginu. Í myndinni er fylgst með hvernig hann öðlast sjálfstæði og leyfir hæfileikum sínum að blómstra í gegnum skipasmíðina.

Líkanið hefur ferðast um heiminn og líkt og fyrirmyndin beið það skipbrot, þó blessunarlega hafi það ekki sokkið í Norður-Atlantshaf. Í heimildamyndinni fá áhorfendur að sjá viðbrögð Brynjars við skaða sem það varð fyrir í Noregi.

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarney Lúðvíksdóttir - HTB

„Er þetta rosalega slæmt, eða slæmt,“ spurði pilturinn afa sinn áður en hann sá ljósmynd af líkaninu. „Ég get ekki lagað þetta,“ sagði hann svo niðurbrotinn þegar hann sá hver skaðinn var, hann staddur á Íslandi en skipið í Noregi. Brynjar var þó ekki lengi að jafna sig. „Mamma, má ég segja svolítið sem þú sagðir mér alltaf, árin sem ég var að byggja skipið? Þú sagðir mér þetta alltaf, og meira að segja ég sagði þetta við sjálfan mig: Þú getur gert hvað sem er í lífinu ef þú trúir. Sjáðu hverju þú hefur áorkað. Við trúðum á okkur sjálf og við getum þá lagað þetta. Skipið var eins og lykill sem opnaði út úr þokunni. Og ég ætla ekki að brjóta lykilinn.“

Hvernig Titanic varð björgunarbáturinn minn verður sýnd á RÚV á annan í páskum klukkan 20:40.

Tengdar fréttir

Innlent

Titanic skip Brynjars sýnt í Tennessee

Innlent

Titanic skip Brynjars varð fyrir skemmdum

Mannlíf

Kubbar risavaxið Titanic úr Lego