„Það er klárlega einhver blekking í gangi“

Mynd: - / Samsett

„Það er klárlega einhver blekking í gangi“

04.04.2021 - 08:00

Höfundar

„Ég var algjörlega á sömu braut og allir,“ segir maður sem trúir því að jörðin sé flöt. Hann er einn fjölmargra sem hafa síðustu ár sannfærst um að heljarinnar samsæri hafi byrgt þeim sýn eftir að hafa fest í hringiðu gervivísinda samsæriskenninga.

Flest lítum við á það sem óhaggandi náttúrulögmál að jörðin sé hnöttótt. Sjóndeildarhringurinn, gangur sólar, þyngdaraflið og loftmyndir af jörðinni teknar úr geimnum eru örfá fyrirbæri af mörgum sem ættu að sannfæra okkur flest um að það sé satt og rétt. Þrátt fyrir það  hefur þeirri kenningu að jörðin sé flöt vaxið fiskur um hrygg síðustu ár.

Í útvarpsþættinum Lífsformið á Rás 1, þar sem fjallað er um fólk sem lifir lífinu á skjön við það sem er almennt talið hefðbundið, er rætt við mann sem trúir því að jörðin sé flöt. Maðurinn óskaði nafnleyndar og hefur rödd hans verið breytt.

„Ég trúi að jörðin sé flöt út frá þeim sönnunargögnum sem ég hef séð í náttúrunni. En allt samsæri, um að hver sé á bak við samsærið, það er eitthvað sem ég hef heyrt frá mönnum sem ég hef ekki tíma eða getu til að rannsaka nægilega vel. En það er klárlega einhver blekking í gangi, tel ég.“

Sama sagan endurtekur sig

Samfélagsmiðlar hafa gert það að verkum að gervivísindi og samsæriskenningar hafa náð meiri og hraðari útbreiðslu en áður. Árin 2014-2017 varð sprenging í fjölda myndbanda á Youtube þar sem því er haldið fram að jörðin sé flöt.

Fólk sem snúist hefur til þeirrar lífsskoðunar, ef svo skyldi kalla, segir flest sömu söguna af því hvernig það sá loks ljósið, eins og kemur fram í umfjöllun BBC um málið. Í fyrstu hafi þeim blöskrað að fólk trúi þessari vitleysu og gerðu ráð fyrir að myndböndin væru misvísandi, í framhaldinu réðust þau í að afsanna kenninguna en í sjálfri rannsóknarvinnunni rann það smám saman upp fyrir þeim að jörðin sé vissulega flöt.

Viðmælandinn í Lífsforminu lýsir því á nákvæmlega sama hátt hvernig hann sannfærðist um að hann hafði lifað í blekkingu.

„Ég var algjörlega á sömu braut og allir, það var ekki fyrr en ég varð 17-18 ára þegar ég fer að hafa gaman af því að lesa um alls konar dót á netinu. Ég hef alltaf verið hrifinn af samsæriskenningum, sama hvort ég trúi þeim eða ekki ... Ég hef alltaf haft gaman af því að lesa um hluti sem engin algild svör eru við, sem maður getur pælt í endalaust.“

Árið 2014 sá hann frétt á Facebook um fólk sem trúir því að jörðin sé flöt. „Djöfulsins hálfvitar,“ hugsaði hann með sér og ákvað að hrekja kenninguna, haldandi það að hann þyrfti ekki að verja meira en 15 mínútum í að taka hana í sundur. „Hálfu ári seinna er ég búinn að lesa um þetta á hverjum degi og hugsa þá að þetta gæti bara mögulega verið rétt.“

Hefur náð að snúa vinum og rugla í kollum

Hann segir að fólk bregðist stundum illa við þegar í ljós kemur að hann trúi því ekki að jörðin sé hnöttur. „Fyrir marga eru svo miklar tilfinningar í þessu og það verður svo reitt, það er sama hvort það sé þetta eða eitthvað annað sem fer gegn straumnum, þá virðast margir hafa svo miklar tilfinningar í þessum málum. Ég skildi það aldrei sjálfur því ég hef aldrei sett svo miklar tilfinningar í svona rökræður. Þetta hefur þau áhrif að við hvern sem maður talar við, þá er maður samstundis afskrifaður sem hálfviti. Það eru félagslegu áhrifin af þessu. Þess vegna hef ég ekki áhuga á því að koma fram undir nafni, því ég nenni ekki að standa í einhverju þannig.“

Þó hittir hann fyrir fólk sem er móttækilegra fyrir hugmyndinni. „Ég náði að snúa tveimur vinum mínum algjörlega og svo hef ég gjörsamlega ruglað í kollinum á mörgum í viðbót, sem ýmist nenna ekki að ræða þetta við mig lengur eða viðurkenna að þeir vita ekki neitt. Það er það sem maður kemst að þegar maður byrjar að skoða þetta, að maður heldur að maður viti svo mikið, en þegar maður byrjar að pæla í þessu þá fattar maður að maður veit ekki neitt.“

Vill ekki vera konu og barni til ama

Helsta ástæðan fyrir því að hann fer í felur með skoðun sína og kemur ekki fram undir nafni er að hann vill ekki verða eiginkonu og barni til ama. „Konan mín hefur beðið mig um að vera ekki þessi skrýtni pabbi. Þegar ég var að uppgötva þetta fyrst vildi ég hrista alla og vekja alla til lífsins. En núna er ég búinn að samþykkja það að fólk verður að átta sig á þessu á sínum hraða. Það er ekkert sem ég get gert til þess að gera það. En núna er miklu erfiðara að uppgötva þessa hluti, vegna þess að það er svo mikið stríð gegn þessum upplýsingum og öllum upplýsingum sem fara gegn fólkinu sem er með völdin.“

Þrátt fyrir að hann segi þetta ekki vera honum mikið tilfinningamál, þá virðist honum hlaupa kapp í kinn þegar talið berst að hinu mögulega samsæri. „Það er eitt af því sem að telur mér enn meiri trú um að það sé eitthvað til í þessu, þegar maður sér fólkið sem að stjórnar, þessir tæknirisar og samfélagsmiðlar. Við sjáum hvað þeir eru mikið að fela þessar upplýsingar. Við erum bara þrælar og við lifum á mjög dimmum tímum. Það er partur af þessu. Þú vilt ekki að þrællinn þinn sé upplýstur, þú vilt halda þrælnum þínum eins heimskum og hann mögulega getur verið. Þess vegna er sniðugt að ljúga að honum um allt og sérstaklega einhverju svona grundvallaratriði eins og hvar hann býr og telja honum trú um að hann búi á einhverri kúlu, þar sem ef hann reynir að fara í burtu þá kemur hann bara aftur á sama stað. Þannig er okkur haldið í þessu fangelsi og sagt að það sé engin útgönguleið.“

Tengdar fréttir

Erlent

Hvað er QAnon og hvaðan kemur þessi samsæriskenning?

Erlent

Hættulegri hópar grípa gæsina þegar QAnon er úthýst

Menningarefni

Ekki eintómir karlar með álpappírshatta

Erlent

Þegar Kyrie Irving sagði að jörðin væri flöt