Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Smit fannst fyrir tilviljun - var að ná í vottorð

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Tveir greindust með kórónuveirusmit utan sóttkvíar í gær og fjórir sem voru í sóttkví. 124 eru nú með COVID-19 hérlendis. Tilviljun réði því að annað smitið utan sóttkvíar kom í ljós.

„Annar aðilinn var nú bara að ná sér í vottorð fyrir för erlendis. Það er ekki komin rakning á það. Þetta tekur nú alltaf svolítinn tíma,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

1.127 manns í sóttkví

Tölulegar upplýsingar á covid.is voru uppfærðar í dag en það er jafnan ekki gert um helgar. Þar kemur fram að 124 eru í einangrun þ.e.a.s. smitaðir af kórónuveirunni. 174 eru í sóttkví sem þykir ekki mikið miðað við fjölda smitaðra. Ástæðan hlýtur að vera sú að nú eru strangar samkomutakmarkanir í gildi. 

Einn greindist með COVID-smit við komuna til landsins í gær. Nærri eitt þúsund manns eru í skimunarsóttkví, eða 953. Það eru þeir farþegar sem komið hafa til landsins síðan á mánudag. 

Flestir í einangrun eru á aldrinum 30 til 39 ára eða 36 manns. Næstflestir eða 28 eru á aldrinum 6 til 12 ára. Enginn 80 ára eða eldri er með smit. Þrjú börn á aldrinum eins til fimm ára eru með smit. 

Uppruni skólasmitanna ókunnur

Raðgreining smitanna að undanförnu sýnir nokkur undirafbrigði af breska afbrigði kórónuveirunnar.    

„Sumt getum við ekki tengt eins og þessi smit sem komu upp í skólunum hér. Við erum ekki með upprunann á því smiti til dæmis á landamærum. Þannig að það hefur einhvern veginn komist í gegnum landamærin án þess að menn hafi uppgötvað það.“

Þórólfur segir ekki tímabært að segja til um hvort hægt verði að slaka á takmörkunum eftir 15. apríl. Núverandi reglur gilda þangað til.